141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[13:44]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um stöðu þjóðarbúsins, horfurnar og á hvaða stað við erum.

Það má auðvitað halda nokkra tölu um stöðu þjóðarbúsins fyrr og nú. Staðan í dag hefur kannski sjaldan verið verri, hún hefur oftast nær verið betri allan lýðveldistímann en einmitt í ár og undanfarin ár. Staðan í dag er hins vegar betri en hún hefur verið frá hruni. Ef við reynum að leggja mat almennt á stöðu þjóðarbúsins undanfarin ár og áratugi hefur hún sjaldan verið verri, en hún er miklu betri en hún var þegar allt hrundi í hausinn á okkur árið 2008 og allar vísbendingar benda í þá átt að staðan muni batna hægt og bítandi og örugglega á næstu missirum og árum.

Mér datt í hug áðan þegar formenn stjórnarandstöðuflokkanna héldu ræður sínar í þessari umræðu, umræða sem átti sér stað í þessum sal fyrir tveim til þrem árum síðan og fjallað var um Parísarklúbbinn, hvort ekki væri rétt að við segðum okkur til sveitar og gengjum til liðs og mundum sækja um í hinn svokallaða Parísarklúbb eftir liðsinni og fá þar inni. Sýn þeirra á framtíðina er svartsýni, þ.e. þeir eru svartsýnir á framtíðina. Þeir virðast telja sjálfum sér trú um það, jafnvel þótt þeir trúi því ekki alveg sjálfir, að það sé svart fram undan og miklu, miklu verra en nokkurn mann órar fyrir. Það er þeirra trú á framtíðina. Það er þeirra boðskapur sem þeir flytja inn í þingið, inn í samfélagið, að sýnin sé svört, það geti jafnvel allt verið við það að hrynja aftur í hausinn á okkur. En hvar eru vísbendingarnar um það? Hvar eru merkin (Forseti hringir.) um það og þau rök byggð á þeim málflutningi sem fór fram áðan hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni? Þau eru ekki í neinum (Forseti hringir.) þeim opinberu gögnum sem þingmenn (Gripið fram í.) hafa.