141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[13:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka forsætisráðherra og formönnum stjórnarandstöðuflokkanna fyrir innlegg þeirra í dag og fagna þeim samhljóm sem er í málflutningi þeirra gagnvart erlendum kröfuhöfum. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að þau skilaboð séu þverpólitísk og skýr.

Alþingi stendur einhuga að baki Seðlabankanum í því að gæta ýtrustu þjóðarhagsmuna í þeim efnahagslegu ákvörðunum sem taka þarf á næstu missirum. Með mars-lögunum hefur bankinn fengið þau tæki sem hann þarf til að standa þann vörð en þurfi hann á frekari tækjum að halda mun ekki standa á Alþingi við að veita honum þau.

Ég hef ítrekað úr þessum stól varað við óraunsæjum væntingum um skjótt afnám gjaldeyrishafta. Ég fullyrði og fagna því að fleiri eru að átta sig á því að óraunsæjar væntingar um það hamla því að við getum unnið úr vandanum. Það er nefnilega þannig að aflandskrónueigendur og erlendir kröfuhafar þurfa að átta sig á því að þær krónur sem hér eru innlyksa fara ekki neitt. Það eina til hagsbóta fyrir íslenskt þjóðarbú og þessa aðila sem hægt er að gera við þær krónur er að fjárfesta, fjárfesta og fjárfesta í gjaldeyrisskapandi starfsemi á Íslandi. Því aðeins verða búin til einhver þau verðmæti sem unnt væri með tíð og tíma að flytja út úr landinu.