141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[13:57]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Skiptar skoðanir kunna að vera á því hvernig meta eigi árangur í ríkisfjármálum og hvort viðunandi árangur hafi náðst eftir hrun. Stjórnvöld hafa tekið á málum. Tölurnar tala sínu máli svo ekki er um að villast. Við erum á réttri leið.

Á hrunárinu 2008 var fjárlagahallinn 216 milljarðar. Með því að grípa strax til aðgerða tókst að ná honum niður í 140 milljarða árið 2009. Samkvæmt áætlunum verður ríkissjóður hallalaus árið 2014. Það skiptir sköpum að þeim árangri var náð með blönduðum aðgerðum aðhalds og tekjuaukningar sem eiga sinn þátt í að staðan er nú mun betri en gert var ráð fyrir að hún yrði á þessum tímapunkti. Reynt hefur verið eftir fremsta megni að hlífa grunnþjónustunni en ná fram meiri hagræðingu í almennri stjórnsýslu og rekstri ríkisins. Er það til samræmis við markmið stjórnvalda um að verja velferðarsamfélagið.

Ríkisstjórnin hefur frá upphafi lagt áherslu á að nota skattkerfið ásamt félagslegum stuðningi til þess að auka jöfnuð í samfélaginu. Við hvers kyns ráðstöfun fjármuna hefur verið reynt að beina þeim til þeirra sem helst þurfa á þeim að halda. Það er af sem áður var.

Í aðdraganda hrunsins var að hætti nýfrjálshyggjumanna svigrúm í fjárlögum hverju sinni helst notað til að lækka skatta hjá vel stæðum einstaklingum með lækkun á fjármagnstekjuskatti og arðgreiðslum. Því þurfti að breyta og það höfum við gert.

Þegar horft er til aðhaldsaðgerða hefur þolmörkum vissulega víða verið náð og álag á starfsfólk orðið umtalsvert. Sem betur fer höfum við nú tækifæri til að vinna okkur upp á við aftur þó enn þurfi að gæta aðhalds.

Í þessum sal hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar mótmælt svo gott sem öllum skattahækkunum. Það er alvarlegt umhugsunarefni sem vert er að staldra við. Hver væri staðan í skólum landsins og á sjúkrahúsum ef engir skattar hefðu verið hækkaðir heldur skorið tvöfalt meira niður en hingað til hefur verið gert?

Sagt hefur verið að traust efnahagsstjórn sé stærsta velferðarmálið. Það er hægt að taka undir þau orð og fagna þeim árangri sem rauðgræn ríkisstjórn hefur náð í þeim efnum.

Hver var valkosturinn við leið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar? Það hlýtur að hafa verið leið Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem hefði falið í sér harkalegan niðurskurð og áframhaldandi einkavæðingu.

Við skulum því fagna því sem (Forseti hringir.) fagna ber. Við höfum starfhæfa skóla og sjúkrastofnanir, stjórnsýslan virkar, atvinnuleysi fer minnkandi. Hagvöxtur er með því besta sem þekkist í Evrópu. Og eyðingaröfl (Forseti hringir.) frjálshyggjunnar eru blessunarlega í stjórnarandstöðu.