141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[14:00]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að geta haldið hér áfram. Ég talaði áðan um að eina leiðin út úr þessum vanda væru stórfelldar afskriftir eða niðurfellingar skulda. Hagvaxtarumræðan er einfaldlega ekki viðeigandi í þessu ástandi, það mun aldrei duga til að tala um einhvern hagvöxt til að komast út úr þessari stöðu.

Ég tek undir það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði áðan. Skilvirkasta leiðin út úr stöðunni virðist vera einhvers konar skiptigengisleið með upptöku nýkrónu þar sem mismunandi tegundir eigna og skulda eru færðar yfir í nýja mynt með mismiklum áföllum. Öðruvísi er mjög erfitt að eiga við þetta mál.

Við búum við þá stöðu að enn þá, fjórum árum eftir hrun, er eignarhald á fjármálafyrirtækjum óljóst. Við vitum ekki hver á fjármálafyrirtækin í landinu. Fjármálaeftirlitið neitar að veita upplýsingar. Ég hefði seint trúað því að við mundum sitja uppi með Fjármálaeftirlit sem væri eins eða verra en það Fjármálaeftirlit sem var fyrir hrun, en því miður virðist staðan vera sú.

Uppbygging fjármálakerfis á öðrum forsendum en fyrir hrun hefur algjörlega mistekist. Fjármálamenningin er sú sama. Fyrirtækjamenningin er sú sama. Talað hefur verið um og var sagt áðan að aflandskrónueigendur og kröfuhafar ættu að nota peningana sína í innlenda fjárfestingu. Þeir eru að því. Þeir eru að kaupa upp íbúðir og íbúðarhúsnæði í stórum stíl í Reykjavík. Hvað þýðir það fyrir íslenska íbúðareigendur og fyrir hagkerfið í heild? Hvers konar staða er komin þar upp þegar kröfuhafar og aflandskrónueigendur eiga orðið stóran hluta af íbúðarhúsnæði? Það hefur ekkert verið skoðað. Þetta er villta vesturs ástand og því miður er það þannig. Fjögur ár hafa verið til að taka ærlega til en það hefur ekki verið gert nema í litlum mæli.

Mig langar að enda orð mín á því að benda mönnum á að allt tal um hagvöxt og að hægt sé að vaxa út úr þessum vanda með auknum hagvexti er (Forseti hringir.) í rauninni alveg óraunhæft. Vandinn er of stór til þess.