141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:07]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum um frumvarp til stjórnarskipunarlaga, um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ég vil í upphafi segja að það er mjög erfitt að ræða svo umfangsmikið og stórt mál þegar ræðutími er þetta stuttur. Í svona stóru máli þegar ný stjórnarskrá er undir gefst ekki svigrúm til að fara mjög vel ofan í nema einstakar efnisgreinar. Það er ekki vel því að stjórnarskráin er grundvallarplagg Íslendinga. Hún er það sem skiptir okkur öllu máli. Reglur samfélagsins eru mótaðar þarna og á þeim byggir allt okkar samfélag. Það hefði verið miklu eðlilegra í umræðum um breytingar á stjórnarskránni að taka fyrir einhverja ákveðna afmarkaða þætti.

Ég hef verið því mjög fylgjandi að setja í stjórnarskrá möguleikann á því að þjóðin geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum og að við eflum beint lýðræði í samfélaginu. En með því að blanda þessu öllu saman og umbylta stjórnarskránni allri í einu er aðdragandinn að því að breyta stjórnarskránni ekki réttur, þá er þetta ekki gert á þeim forsendum að við náum um það víðtækri sátt. Stjórnarskráin er ekki plagg Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknarflokks eða einhverra annarra stjórnmálaflokka. Stjórnarskráin er plagg þjóðarinnar allrar og stjórnarskráin á að vera hafin yfir hina pólitísku umræðu.

Ég ætla að taka sérstaklega fyrir eitt ákvæði í þessari ræðu, fullveldisafsalið. Þegar þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram um þessar tillögur bentu margir á að það hefði verið heppilegt að spyrja þjóðina hvort hún vildi sjá öflugra fullveldisákvæði í stjórnarskrá en þessar tillögur gera ráð fyrir. Það var ekki vilji til þess hjá stjórnarmeirihlutanum að spyrja þjóðina þeirrar spurningar. Margir telja að það hafi verið vegna þess að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafði áhyggjur af því að þjóðin vildi ganga lengra og setja hærri þröskulda en þessar tillögur gerðu ráð fyrir í því að verja fullveldið. Þær eru margar, yfirlýsingarnar sem hefur verið haldið fram í aðdraganda þessarar vinnu um fagleg vinnubrögð, gegnsæi og annað því um líkt.

Því hefur verið haldið fram að þjóðfundur sem kallaður var saman á haustdögum 2010 og hafði meðal annars það markmið að fjalla um þetta mál hefði haft að leiðarljósi stjórnlagaráðið sem meiri hluti Alþingis valdi eftir að Hæstiréttur hafði ógilt stjórnlagaþingskosninguna. Sá þjóðfundur var mjög afdráttarlaus þegar kom að fullveldi þjóðarinnar. Það kom fram bæði í upphafsorðum og niðurstöðum þjóðfundarins að stjórnarskráin ætti að vera sáttmáli sem tryggði fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Það var meðal annars fjallað um það í fjölmiðlum þegar niðurstaða þjóðfundarins var til umræðu að það hefði vakið sérstaka athygli hversu mikil áhersla hefði verið lögð á þennan þátt í niðurstöðum þjóðfundarins.

Síðan kemur að tillögum stjórnlagaráðs og því frumvarpi sem við ræðum hér um fullveldisákvæðið. Nú liggur fyrir að sitjandi ríkisstjórn hefur það á stefnuskrá sinni að gerast aðili að Evrópusambandinu eða í það minnsta annar stjórnarflokkurinn sem nýtur rúmlega 20% stuðnings í skoðanakönnunum í dag.

Á margan hátt má segja að þessar tillögur stjórnlagaráðs séu sniðnar að kröfum Evrópusambandsins, en öllum er ljóst að núverandi ríkisstjórn hefur fjallað um það oftar en einu sinni að hér þurfi að breyta stjórnarskrá. Forustumenn Samfylkingarinnar hafa meðal annars sagt að opnun á fullveldisafsali í stjórnarskrá sé eitt af mikilvægustu málum flokksins vegna þess að annars mundi ESB-umsóknin læsast inni.

Í ljósi mikilvægis málsins fyrir ríkisstjórnina ætti engan að undra ítrekaðar umfjallanir Evrópusambandsins um stjórnarskrárbreytingar Íslands, nú síðast í nýútkominni framvinduskýrslu ESB um stöðu ESB-viðræðnanna. Evrópuþingið fjallaði einnig um þessi mál í ályktun í mars 2012 en þar var því sérstaklega fagnað að ríkisstjórnin hefði skipað stjórnlagaráð sem ynni síðan að endurskoðun stjórnarskrár Íslands. Af hverju gerði Evrópusambandið þetta? Jú, vegna þess að allir gera sér grein fyrir því að það verður að opna á aukið fullveldisafsal til að við getum orðið aðilar að Evrópusambandinu.

Nú liggur fyrir að þjóðfundurinn sem haldinn var hafði aðra sýn en þessa og vildi styrkja fullveldið í stjórnarskrá landsins. Þá erum við komin að þessu ákvæði í drögum að nýrri stjórnarskrá, 111. gr. Þar er opnað á að heimilt sé að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Það er kveðið á um að framsalið skuli vera afturkræft og það er líka kveðið á um það síðar í þessari grein að feli lögin í sér verulegt valdaframsal skuli þau borin undir atkvæði allra kosningarbærra manna til samþykktar eða synjunar. Þá spyr sá sem ekki veit: Hvað er verulegt valdaframsal? Er Evrópusambandsaðild verulegt valdaframsal? Er afsal á einstökum þáttum eins og nefnt hefur verið sektarákvæði vegna alþjóðlegra samninga verulegt valdaframsal? Hvar liggur línan í þessu nákvæmlega?

Það liggur alveg ljóst fyrir að með þessari grein er opnað mun meira á valdaframsal en í þeirri stjórnarskrá sem við erum með í dag. Það væri fróðlegt að heyra í þeim sem bera þetta mál fram hvernig þeir telji að þessi grein endurspegli það viðhorf sem kom fram á þjóðfundinum 2010 og það viðhorf sem ég kom inn á áðan.

Svo er athyglisvert að bera þessa grein saman við 67. gr. sem fjallar um möguleika þjóðarinnar til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um einstök mál. Í 2. málslið 1. mgr. stendur:

„Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt.“

Þjóðréttarlegar skuldbindingar sem heimilar eru í 111. gr. eru þá undanþegnar þjóðaratkvæðagreiðslum í 67. gr. Það er í það minnsta mjög óljóst hvort svo sé eða ekki en samkvæmt orðanna hljóðan er ekki hægt að lesa annað út úr þessu en það að um þau mál sem heyra til að mynda undir Evrópusambandsaðild geti þjóðin ekki kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum, hvort sem þau eru lítil eða stór. Og jafnvel þó að vitnað sé til þess í 111. gr. að framsal ríkisvalds skuli ávallt vera afturkræft getur þjóðin ekki kallað eftir atkvæðagreiðslu um úrsögn úr Evrópusambandinu vegna þess að það er undanskilið í þessari 67. gr. Þegar við horfum upp á Evrópusambandið víkka sig út og hversu mikið af lögum kemur beint frá Evrópusambandinu er augljóst að þjóðin hefur ekkert um það að segja og getur ekki kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um þau.

Þegar kemur aftur að þessari 111. gr. sem er um framsal ríkisvalds og möguleikana á því má líka velta fyrir sér af hverju menn eru ekki með hærri þröskulda þegar um verulegt valdaframsal er að ræða, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson vitnaði til í gær og ræddi í sinni ræðu. Það er ótrúlegt að menn séu að tala um að opna á jafnvel stórt og mikið valdaframsal, t.d. Evrópusambandsumsókn, og að þá þurfi ekki aukinn meiri hluta. Við þekkjum úr nágrannaríkjum okkar að menn eru að tala um að ef um verulegt valdaframsal er að ræða þurfi hærri þröskulda. Ef um minna framsal er að ræða er hægt að komast af með lægri þröskulda.

Það er ekki hægt að lesa annað út úr þessu sem tengist fullveldisákvæðunum en að fullveldið styrkist ekki með þeim drögum sem liggja hér fyrir. Fullveldið veikist með fyrirliggjandi tillögum. Það liggur algjörlega ljóst fyrir, og það væri mjög fróðlegt að heyra þau sem bera þetta mál fram, hv. þingmenn Valgerði Bjarnadóttur, Álfheiði Ingadóttur, Róbert Marshall, Lúðvík Geirsson, Magnús Orra Schram og Margréti Tryggvadóttur, fjalla um þetta ákvæði á þessum nótum eða tengja þjóðaratkvæðagreiðslurnar inn í þetta á einhvern hátt þannig að það liggi ljóst fyrir. Ég hef ekki heyrt þau velta því upp hvort vilji sé til þess að veikja fullveldið með þessum hætti. Er vilji þjóðarinnar sá að veikja fullveldið með þessum hætti? Stendur vilji meiri hluta þjóðarinnar til þess að opna á fullveldisafsal í stjórnarskrá með þeim hætti sem hér kemur fram?

Það er ótrúlegt að setja málið í þessa stöðu vegna þess að, eins og ég kom inn á, mörg atriði í þessu frumvarpi eru góðra gjalda verð og skoðunarverð.

Ég vil taka aftur fram að ég hef til að mynda verið mjög fylgjandi ákvæði sem snertir beint lýðræði og er mjög fylgjandi því að opnað sé fyrir aukið beint lýðræði í stjórnarskrá og þjóðinni sjálfri veittar auknar heimildir. Ég hef efasemdir um þær gríðarlegu þrengingar sem er verið að setja inn í það ákvæði, bæði hvað varðar skattamálefni, fjárhagsleg málefni, og eins þjóðréttarskuldbindingar. Maður sér ekki að hugsunin á bak við þjóðréttarskuldbindingarnar sem þarna koma inn geti verið önnur en að tryggja að ekki geti hlaupið snurða á þráðinn með nokkurn hlut ef til þess óheillaspors komi að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Það er engu líkara en að Evrópusambandið hafi sjálft lesið yfir þessi drög og gefið grænt ljós á að þetta gæti farið svona fram.

Síðan er annað málefni sem er fróðlegt að skoða og það snýr að 34. gr. er varðar náttúruauðlindir í þjóðareign. Ég ætla líka að taka það út frá þessum fullveldisvinkli. Þar segir:

„Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“

Svo segir undir lok greinarinnar:

„Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.“

Þarna er lögð áhersla á að auðlindirnar séu eign þjóðarinnar. Við skulum taka skilgreininguna á auðlindunum út fyrir sviga en engu að síður er ekkert sem útilokar að síðan sé hægt að framselja nýtingarréttinn á auðlindunum frá þjóðinni, úr landi til spænskra sjómanna ef við tökum sjávarauðlindina eða til skoskra sjómanna. Það er ekkert í stjórnarskránni sem útilokar að auðlindin sé eign þjóðarinnar en að nýting hennar sé frá ríkjum hugsanlega sunnar í Evrópu. Þessu vil ég líka velta upp. Er vilji til þess að opna svona á þetta í stjórnarskrá?

Ég er því mótfallinn. Þarna sér maður líka að verið er að veita heimildir og opna inn í stjórnarskrána vegna þess að það er nauðsynlegt út af Evrópusambandsumsókninni. Þá ætla ég að koma aftur inn á að Evrópusambandið hefur sjálft fjallað um þessi málefni og fagnað því, eins og ég kom að í ræðu minni áðan, oftar en einu sinni að Íslendingar skuli vera að endurskoða stjórnarskrá sína sem sé nauðsynlegt að gangi hratt og vel fyrir sig vegna þess að ef það gerist ekki strandar Evrópusambandsumsóknin.

En ég vil segja aftur að ég er fylgjandi ákveðnum breytingum á stjórnarskránni. Ég held að þetta sé ekki unnið með réttum hætti. Þarna er verið að klæða þessa vinnu í búning sem mér líkar ekki. Ég áskil mér rétt til að fjalla frekar um stjórnarskrána og aðrar greinar frumvarpsins í næstu ræðu minni og óska eftir því að forseti setji mig aftur á mælendaskrá.