141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:24]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Af því að hann kom inn á Noreg og nágrannaríki í máli sínu er einmitt töluverð umræða í norsku samfélagi í dag um fullveldismál, framsal ríkisvalds og þau málefni sem tengjast framsali ríkisvalds. Ekki síst vegna þess að þar kom nýlega út skýrsla um EES-samninginn og það fullveldisafsal sem í honum er fólgið. Menn ræða hvernig hægt sé að bregðast við því, ekki út frá stjórnarskránni heldur út frá því að Norðmönnum þóknast ekki hvernig EES-samningurinn er að þróast.

Ég hef ákveðnar skoðanir á því en tek hins vegar undir með hv. þingmanni hvað þá grein snertir. Henni þarf að breyta. Ég held að hyggilegast væri, eins og meðal annars hefur komið fram hjá flokksfélaga hv. þm., Birgi Ármannssyni, að setja inn einhver konar þrep. Þannig geta menn velt því fyrir sér að ekki er jafnhár þröskuldur á tiltölulega litlu fullveldisafsali eða einstökum samningum sem snerta einhver ákveðin málefni mjög þröngt, og mjög miklu fullveldisafsali eins og EES-samningurinn hefði verið og er og hugsanleg aðild að ríkjasamböndum eða annað því um líkt, þá þarf mun hærri þröskuld. Fyrirsögnin á 111. gr. ætti ekki að vera Framsal ríkisvalds, hún ætti að vera Vörn fullveldis.

Hugmyndin á að vera hvernig við getum varið fullveldið en engu að síður tekið þátt í alþjóðlegum samskiptum. Hugmyndafræðin á ekki að vera sú hvernig við getum framselt ríkisvaldið með sem auðveldustum hætti.