141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:34]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tek aftur undir með honum, það gæti verið mjög fróðlegt að skoða möguleikann að hafa misjöfn þrep. Það getur reyndar reynst dálítið erfitt að skilgreina og það þarf að skilgreina mjög vel hvar mörkin liggja þarna á milli og hverjar kröfurnar eiga að vera í einstökum þrepum. Það er algjörlega ótækt að mínu viti að við séum að ganga styttra hvað það snertir en gengur og gerist í nágrannaríkjunum.

Ef til verulegs valdaframsals kemur, eins og til dæmis Evrópusambandsaðildar, og eigi að greiða þjóðaratkvæði um slíkt gefur augaleið að þar eigum við ekki að ganga skemur en nágrannaríkin sem tala um 2/3 eða 3/4 atkvæða í slíkum tilfellum. Síðan þegar kemur að einhverjum smærri málum, eins og hv. þingmaður kom inn á, ætti að einhverju leyti að vera nóg að fá stuðning meiri hluta Alþingis og það skiptir svo miklu máli.

Af því að hv. þingmaður er í nefndinni vil ég líka beina því til hennar að skoða 67. gr. þegar verið er að undanskilja frá þjóðaratkvæðagreiðslu öll málefni sem tengjast síðan slíkum þjóðréttarsamningum. Það tel ég algjörlega ótækt og sérstaklega í ljósi þess að þeim málum sem koma hingað inn á borð er alltaf að fjölga og við þingmenn sjáum að ekki er hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um nein þeirra EES-mála sem koma hingað. Það er algjörlega ótækt og ég hvet nefndina til þess að skoða það samhliða 111. gr.