141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það og tel fulla ástæðu til að skoða samspil 67. gr. og 111. gr. hvað þetta varðar. Það er einmitt mjög sérstakt að gert er ráð fyrir að ekki geti farið fram þjóðaratkvæðagreiðslur um samninga eða löggjöf sem byggir á þjóðréttarsamningum í 67. gr. en svo er sérákvæði um fullveldisframsalið í 111. gr. Það þarf að skoða gaumgæfilega hvernig þetta vinnur saman og ég persónulega treysti mér ekki til að svara því á þessari stundu hvernig það á að vinna saman. Þarna geta ákvæðin skarast og þá þarf að hugleiða vel hvernig með á að fara.

Það sem ég vildi kannski fyrst og fremst gera með andsvari mínu áðan, og ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin, var einmitt að vekja athygli á því að í tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir einu, opnu, almennt orðuðu ákvæði sem á að taka á til hvers kyns fullveldisframsals. Mér finnst hins vegar mikilvægt að ná inn í þá umræðu að þarna getur verið um gríðarlega mikið róf að ræða. Allt frá því að vera mjög takmarkað framsal á afmörkuðu sviði upp í það að vera verulegt fullveldisframsal eins og þegar um Evrópusambandsaðild er að ræða þar sem gert er ráð fyrir verulegu framsali löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdarvalds til stofnana Evrópusambandsins.

Þarna verður auðvitað að greina á milli og það er mikilvægt að í því ákvæði sem á endanum verður samþykkt verði slíkan greinarmun að finna. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ákvæðið eins og það er orðað af hálfu stjórnlagaráðs, (Forseti hringir.) jafnvel með þeim lagfærðu skýringum sem koma frá lögfræðingahópnum, er að mínu mati allsendis ófullnægjandi útfærsla. (Forseti hringir.)