141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Segja má að ég hafi tekið nokkurt forskot á sæluna með andsvörum mínum við hv. þm. Ásmund Einar Daðason vegna þess að það var akkúrat þetta efni sem ég ætlaði að taka til umfjöllunar á þeim fáu mínútum sem ég hef nú til ráðstöfunar.

Ég ætlaði að rifja upp í upphafi að ástæða þess að menn fóru að ræða að setja ákvæði um fullveldisframsal inn í stjórnarskrá á sér þá sögu, ef við getum orðað það svo, að á undanförnum tveimur áratugum höfum við í nokkrum tilvikum lent í alvarlegri kreppu í þinginu vegna þess að við höfum haft til meðferðar frumvörp sem hafa falið í sér tilvik sem eru að minnsta kosti á gráu svæði hvað varðar fullveldi landsins. Um hefur verið að ræða nokkur tilvik um framsal ríkisvalds til alþjóðlegra eða yfirþjóðlegra stofnana og það hefur verið á gráu svæði vegna þess að stjórnarskrá okkar gerir, samkvæmt orðanna hljóðan og hefðbundinni túlkun, ekki ráð fyrir öðru en að æðsta vald á sviði framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds sé hjá innlendum aðilum.

Ég næ ekki að fara í miklar söguskýringar í þeim efnum en við skulum hafa það í huga að þau tilvik sem hafa komið upp á undanförnum árum, t.d. 2005 þegar við samþykktum tiltekin ákvæði varðandi áhrif Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði samkeppnismála, í fyrra eða hittiðfyrra á sviði flugmála og svo hafa komið upp álitamál á fleiri sviðum, um stjórnkerfi á sviði loftslagsmála, á sviði fjármálamarkaða. Þarna hafa verið um að ræða tilvik þar sem, við getum orðað það svo að lögfræðingar hafa stundum þurft að fara út á ystu nöf við að túlka íslensku stjórnarskrána þannig að fullveldisframsal væri að einhverju leyti heimilt. Í sumum tilvikum hafa lögfræðilegir ráðgjafar varað okkur við því að samþykkja tillögurnar óbreyttar af þeim sökum að þær samræmdust ekki stjórnarskrá. Það var upphaflega hugmyndin á bak við það að setja ákvæði inn í stjórnarskrá sem hefði í för með sér heimild til einhvers konar fullveldisframsals.

Gott og vel. Í tillögum stjórnlagaráðs er greinilegt að upphaflega var ætlunin að ákvæðið tæki bæði til framsals af því tagi sem ég hef nefnt, takmarkaðs framsals á afmörkuðum sviðum, en undir það mætti líka færa viðameira, stærra framsal eins og fylgdi aðild okkar að Evrópusambandinu. Ákvæðið er bara eitt og það á að rúma bæði hin smæstu tilvik af þessu tagi og hin stærstu tilvik. Þannig skildi ég alla vega tillögu stjórnlagaráðs eins og hún kom fyrst fram.

Ég vísaði til þess áðan að í skýringartexta lögfæðinganna fjögurra, sem fylgir með sem greinargerð frumvarpsins, er aðeins búið að breyta frá því. Þeirra niðurstaða er í sem skemmstu máli, og vísa ég til bls. 249 í þessari sérprentun á frumvarpinu með greinargerð, að óverulegt framsal eða minni háttar framsal þarfnist ekki þjóðaratkvæðagreiðslu heldur eigi ákvæðið um fullveldisframsal samkvæmt orðanna hljóðan bara við um verulegt framsal. Með því sýnist mér að lögfræðingahópurinn túlki það þannig að þau tilvik um takmarkað framsal á afmörkuðum sviðum sem við höfum verið í vandræðum með á undanförnum árum verði áfram heimild með sama hætti og talið hefur verið, á grundvelli venjulegrar lagasetningar, án þeirrar sérreglu um þjóðaratkvæðagreiðslu og slíkt sem gert ráð fyrir í 111. gr.

Ég veit ekki hvort ég misskil lögfræðingahópinn, hvort lögfræðingahópurinn misskilur stjórnlagaráð eða hvort ég misskildi upphaflega tillögur stjórnlagaráðs en ég held að þarna séum við komin út á einhverja hála braut vegna þess að tilgangurinn var alltaf sá, eins og ég segi, að það væri sérstakt ákvæði í stjórnarskránni sem heimilaði þau tilvik, eins og þegar verið er að fela loftslagsstofnun Evrópu að útdeila einhverjum kvótum og beita viðurlögum o.s.frv. Það var hugmyndin svo það er komið eitthvað á skjön. Þótt ég geri ekki annað hér þegar hallar nú að niðurstöðu (Forseti hringir.) umræðunnar skora ég á þingmenn að skoða það atriði vel, 111. gr., því að ég held að það þurfi (Forseti hringir.) á margan hátt að hugsa hana upp á nýtt.