141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hv. þingmaður deilum afstöðu til þessa atriðis í megindráttum. Ég held að leiðin sem farin er í norsku stjórnarskránni sé áhugaverð. Ég er ekki tilbúinn til að segja á þessari stundu að við ættum að afrita það ákvæði og setja í okkar stjórnarskrá, en mér finnst hugmyndin þar um mismunandi leiðir til að takast á við minni háttar og meiri háttar fullveldisframsal áhugaverð.

Reyndar ef ég man rétt er ekki gert ráð fyrir kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu í norsku stjórnarskránni varðandi fullveldisframsal, það er bara spurning um aukinn meiri hluta á þingi. Þá þegar er um ákveðið frávik að ræða. En hugmyndin um að það eigi að fást við meiri háttar framsal og minni háttar framsal með mismunandi hætti, ég er samþykkur henni og tel að hún sé áhugaverð og mikilvæg.

Hv. þingmaður nefnir að um mikilsvert mál sé að ræða og ég er fullkomlega sammála henni um það. Ég held að það sem snertir beint eitt stærsta pólitíska álitamál okkar tíma sé atriði sem þarf að ræða gaumgæfilega. Þau eru auðvitað miklu fleiri í þessum stjórnarskrártillögum og ég vona svo sannarlega að við fáum tækifæri til að ræða önnur atriði líka í þaula, en ég tel að þar sem þetta atriði hefur fengið fremur litla athygli og litla umræðu sé mikilvægt að nefna það í umræðunni áður en nefndarstörf á þessu sviði hefjast.