141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:54]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir málefnalega nálgun í þessu mikilvæga atriði sem við erum með undir í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Ég vil meina að þetta sé eitt af stærri málunum í því, þó að þau séu mörg stór. Það skiptir miklu að gott samkomulag sé um það hvernig við útfærum þetta.

Ég á erfitt með að taka þessa umræðu á þeim nótum sem var hér í fyrri þingræðum í umræðunni þar sem menn máluðu þetta ákvæði í einhverjum framtíðarlitum þar sem Evrópusambandið er í öllum skúmaskotum að reyna að bregða fæti fyrir íslenskt fullveldi. Þetta mál snýr að forsögunni ekkert síður en mögulegri framtíð. Það er hárrétt sem kom fram í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar að þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta mál kemur upp. Þessi tillaga hefur verið til umræðu í stjórnlagaráði og stjórnlaganefndum a.m.k. aftur til ársins 2005, ef ekki fyrr, og þessi ákvæði hafa verið útfærð og rædd með ýmsum hætti.

Það er ljóst að málið snýr nokkuð að því að vega og meta hvað er meiri háttar og hvað er minni háttar. Við horfum til þess að Alþingi hefur á undanförnum árum og áratug og jafnvel þótt lengra sé litið aftur afgreitt hér mál sem fela í sér fullveldisafsal með einum eða öðrum hætti sem hefðu aldrei gengið í gegn á þeim grunni sem lagðar eru þó línur með í þessu frumvarpi. Það má auðvitað skoða mjög ítarlega og mun betur hvernig þetta fer saman. En ég vil spyrja hv. þingmann hvort ég skilji hann rétt, varðandi hvað sé meiri háttar og minni háttar, að við séum að ræða (Forseti hringir.) um einhvers konar þröskulda á þingi á móti þjóðaratkvæði um stærri mál.