141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég get staðfest að það er eitthvert svoleiðis fyrirkomulag sem ég hef í huga, þ.e. ef um er að ræða mjög afmörkuð tilvik og hugsanlega takmarkað framsal. Til dæmis tek ég oft í þessari umræðu dæmið um sektarvald evrópskrar flugumferðarstofnunar vegna tiltekinna brota flugrekenda. Strangt til tekið er það auðvitað fullveldisframsal á þessu takmarkaða sviði. Ég er ekki viss um að nauðsynlegt sé að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um það. Ég held að heppilegra væri ef við hefðum þarna ákvæði um að aukinn meiri hluti þingsins gæti afgreitt mál af því tagi. Það mætti síðan hafa einhvern öryggisventil ef ekki næðist niðurstaða eftir tiltekna málsmeðferð á þingi, þá væri hugsanlega hægt, sem þrautavaralendingu, að láta kveða upp úr um það með þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég sé ekki ástæðu til að gera það ef ekki er tiltakanlegur ágreiningur um aðgerðina og ef fullveldisframsalið er mjög afmarkað.

Eins og ég sagði hins vegar áðan í andsvörum við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur er ég þeirrar skoðunar að ekki sé eðlilegt að meiri háttar framsal, þ.e. það nær til margra sviða og felur hugsanlega í sér verulegt valdaframsal, sé afgreitt nema með þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég get því séð fyrir mér þessar tvær mismunandi leiðir.

Ég er ekki andvígur því að í íslenskri stjórnarskrá sé ákvæði sem heimilar fullveldisframsal undir einhverjum kringumstæðum og með ákveðnum skilyrðum. En ég tel að með þeim útfærslum sem hafa verið lagðar á borð okkar þingmanna frá stjórnlagaráði, með skýringarbreytingum eða greinargerðarbreytingum frá lögfræðingahópnum, séum við ekki komin að niðurstöðu og höfum ekki náð fullnægjandi lendingu í málinu.