141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:58]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir svör hans. Ég get að mörgu leyti verið sammála nálgun hans og finnst skipta máli að við ræðum þetta einmitt á þessum nótum. Ég vísa til þess að undanfarnar vikur hefur utanríkismálanefnd þingsins verið með ákveðið mál sem lýtur að regluverki Evrópusambandsins í fanginu sem í sjálfu sér enginn ágreiningur er um, mikilvægi og gildi þess að innleiða það ákvæði og þá reglugerð. En sérfræðingar okkar á sviði stjórnlagamála eru þeirrar skoðunar að í því felist fullveldisafsal og þingið hafi bara enga heimild, miðað við gildandi stjórnarskrá, til að innleiða ákvæðið. Ef við lítum til sögunnar getum við örugglega fundið fjöldann allan af slíkum ákvæðum sem hafa verið fest í regluverki okkar þvert á ákvæði stjórnarskrár.

Þess vegna verður að nálgast þessa umræðu á þeim nótum eins og fyrri fulltrúar á þingi hafa rætt áður, og margir þeirra sitja hér enn á þingi, að þjóðþingið verður að bregðast við þeirri stöðu sem við erum í, því alþjóðasamfélagi sem við lifum í, og horfa til þess hvernig við getum gert þetta rétt. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vera frekar sparari á þjóðaratkvæðagreiðslur en hitt. Það er engin lausn að ætla að vísa öllum málum í þjóðaratkvæði bara vegna þess að einhverjum finnst það spennandi. Þjóðaratkvæði á að nota þegar virkilega er þörf á og ástæða til þannig að menn taki fullt mark og mið af því sem þar er lagt fyrir og út úr því kemur. Þingið verði að tryggja einhverjar leikreglur í þingsal til að menn geti afgreitt með öðrum hætti önnur mál og það sé þá (Forseti hringir.) tryggur meiri hluti fyrir því.