141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Að þessu sinni heyrist mér við hv. þm. Lúðvík Geirsson vera sammála í öllum meginatriðum. Ég er einmitt alveg sammála því sjónarmiði sem kom fram í lok ræðu hans, að þjóðaratkvæðagreiðsla sé mikilvægt tæki og henni eigi að beita þegar raunverulega er ástæða til. Ég er ekki þeirrar skoðunar, og hygg að hv. þingmaður sé það ekki heldur, að þjóðaratkvæðagreiðslur séu lausn allra vandamála og því fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur því betra. Ég held að svo sé ekki. Ég held að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi að vera um raunveruleg stórmál, stórar ákvarðanir sem mikill ágreiningur er um, helst, alla vega verður það að vera skilyrði að málið sé raunverulega stórmál í pólitísku samhengi. Ég held að þjóðaratkvæðagreiðslufyrirkomulagið skaðist ef þjóðaratkvæðagreiðslur eru of margar og of tíðar og um of sérhæfð og afmörkuð efni. Ég held að þar með dragi úr þátttöku í þeim og þar með dragi úr vægi þeirra. Við ættum líka að hafa þetta í huga þegar við horfum á önnur ákvæði stjórnarskrártillagnanna, m.a. sem vísa í þjóðaratkvæðagreiðslur.

Varðandi viðfangsefni okkar akkúrat á þessum punkti í umræðunni, sem er 111. gr., vil ég varpa fram þeirri hugmynd sem ég hef svo sem einhvern tíma gert hér í þinginu og annars staðar, hvort það væri ástæða, eins og dæmi eru um í einstökum löndum þótt það sé kannski ekki algengt, að hafa sérákvæði í stjórnarskránni sem varðar skilyrði þess að við göngum í Evrópusambandið, (Forseti hringir.) að við tökum Evrópusambandið sérstaklega fyrir því að það er fyrir hendi, það er afmarkað, (Forseti hringir.) og fullveldisframsal gagnvart Evrópusambandinu er töluvert annars eðlis en önnur þátttaka í alþjóðlegu samstarfi.