141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða hinar ýmsu samlíkingar og túlkanir sem hv. þingmaður nefndi með í ræðu sinni. Í lok ræðunnar kom hann inn á mikilvægi sjálfstæðisins og fullveldisins, en samkvæmt 111. gr. tillögunnar er einmitt fjallað um kaflann sem snýr að framsali ríkisvalds. Þar er opnað fyrir heimild til að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að. Þar er líka fjallað um að það eigi að vera afturkræft með einhverjum hætti og að það skuli borið undir atkvæði allra kosningabærra manna sé um verulegt valdaframsal að ræða.

Margir hafa gagnrýnt að ákvæðið sé ekki nægjanlega sterkt og standi ekki nægilega vörð um fullveldið og það gangi ekki eins langt og til að mynda hjá nágrannaríkjum okkar. Mig langaði að spyrja hv. þingmann sérstaklega út í þetta ákvæði, hvort hann telji að 111. gr. standi nægilega vörð um fullveldi þjóðarinnar.

Síðan er eitt í tillögunum sem ég hef persónulega verið hrifinn af þó að ég sé ekki hrifinn af því hvernig það er þrengt í tillögunum. Það snýr að beinu lýðræði og er í 67. gr. þar sem er opnað á að ákveðinn hluti þjóðarinnar geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál. Reyndar finnst mér gagnrýnisvert við tillöguna að hún þrengir það töluvert niður. Þarna eru undanskildir þjóðréttarsamningar og þær skuldbindingar sem því fylgja, skattamálefni o.fl.

Ég deili þeim skoðunum með hv. þingmanni að margt er gagnrýnisvert við vinnulagið í málinu. Er hv. þingmaður fylgjandi því að við innleiðum beint lýðræði í meira mæli í stjórnarskrá og að þjóðin geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál?