141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:21]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mat mitt að 111. gr. sé óbrúkleg af því að hún er svo veik fyrir sjálfstæði Íslands.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru af hinu góða í mörgum tilvikum en það má líka ofnota þær, það má ofsjóða þær eins og margt annað. Ég held að það geti orkað mjög tvímælis að einhverjir hlutir sem íhuga þarf vel og gæta þarf varúðar við geti farið úr böndunum í einhverju móðursýkiskasti sem við Íslendingar lendum stundum í eins og aðrar þjóðir í ýmsum málum. Þá getur illa farið ef einhver kemur og býður okkur gull og græna skóga og við látum blekkjast. Þá getur það tapast sem er búið að eyða öldum, allri sögutíð Íslands í að verja og sækja.

Það er því mjög vandmeðfarið og þessi orð „meira lýðræði“ hljóma svolítið eins og þegar menn segja í embættiskerfinu: Þetta er í faglegu mati. Mjög faglegt. Þá veit maður af reynslunni að það er einhver bölvuð vitleysa í gangi, verkleysi og skortur á verksviti og reynslu. Þá er farið í skjól við falleg orð sem segja ekki söguna eins og hún er.

Við eigum að vera mjög hörð í öllu er lýtur að því að stemma stigu og standa í vegi fyrir valdaframsali á íslenskum rétti.