141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:23]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að þar hafi komið fram að ég og hv. þingmaður erum bæði sammála og ósammála. Ég er ósammála hv. þingmanni um þá nálgun sem hann hefur á hugmyndafræðina á bak við beint lýðræði. Ég er henni mjög fylgjandi og tel að við eigum að vera tilbúin til þess að veita málum út til þjóðarinnar í auknum mæli og að þjóðin geti sjálf kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um ýmis mál.

Við sáum það til að mynda í Icesave-samningunum hvernig þjóðin hafði vit fyrir misvitrum stjórnmálamönnum, embættismönnum og fleirum. Ég treysti henni vel og tel að ef við fengjum aukið aðhald þjóðarinnar og mundum ekki undanskilja ákveðin mál, eins og gert er ráð fyrir þarna, mundi þingið nálgast þjóðina og embættismannakerfið meira í skoðunum vegna þess að þá hefði þjóðin þennan möguleika.

Við erum hins vegar mjög sammála þegar kemur að fullveldisafsalinu og að 111. gr. sé á engan hátt nægilega vel úr garði gerð þannig að hún tryggi fullveldi þjóðarinnar og sjálfstæði hennar. Það var mjög góð samlíking hjá hv. þingmanni að á örskömmum tíma geti tapast eitthvað sem tekið hafi tugi og jafnvel hundruð ára að ná. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð en það er í krafti þess sem við höfum náð að sækja fram og byggja þetta land, að við höfum náð að tryggja hér ein bestu lífsskilyrði sem fyrir finnast í hinum vestræna heimi. Ég tek undir með hv. þingmanni að 111. gr. eins og hún er upp sett þarna er óbrúkleg, svo ég noti orðalag hv. þingmanns.