141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:25]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt skilið að ég sé einhver þröskuldur á aukið lýðræði, ég er mjög hlynntur því. Varnaðarorð mín byggðust einmitt á því að mjög vandmeðfarið væri að setja það upp. Það er mjög æskilegt að vísa málum til fólksins okkar úti um byggðir og sveitir landsins en við komum alltaf að spurningunni sem á eftir að ræða mjög mikið: Geta til að mynda 30 þingmenn óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, 30 þús. Íslendingar eða 3 þús., menn með kosningarrétt o.s.frv.? Það á eftir að ræða og þarna þarf að finna eitthvert bil, en það er mjög æskilegt, eins og hv. þingmaður sagði, að opna þessar dyr mjög ákveðið og markvisst þannig að aðhald komi frá þjóðinni á þá samkundu sem er á Alþingi. Ekki veitir af stundum að það sé til staðar.

Ég er því alveg fullkomlega sammála hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni um að lýðræðið þarf að fá meiri sess í framgjörð lagasetningar, stjórnarskrár og annarra þátta sem við vélum um frá missiri til missiris.