141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:27]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég tek til máls í annað sinn um þetta virðulega og góða mál og hefði gjarnan viljað tala lengur. Ég náði ekki að ræða nokkur atriði í gær í ræðu minni sem ég hefði viljað fara dýpra í. Það hefur verið kallað eftir efnislegri umræðu. Mig langar að ræða fjögur atriði sem ég tel skipta mjög miklu máli; jafnt atkvæðavægi, beint lýðræði, persónukjör og stjórnmálaflokka og auðlindir í þjóðareigu.

Hvað varðar nýmælið um jafnt atkvæðavægi hef ég lýst því hér yfir áður að í allri lýðveldissögunni, nærri 70 árum, hefur Alþingi algerlega brugðist í því að tryggja fólki á Íslandi jafnt vægi atkvæða og hefur verið ófært um að breyta þessu til að Ísland geti kallast alvörulýðræðisríki. Með þessari stjórnarskrá er stigið það mjög mikilvæga skref að valdið skipist ekki eftir því hvar menn eiga heima. Eins og svo margir aðrir hef ég þó vissulega skoðað þær áhyggjur sem menn hafa í landsbyggðarkjördæmunum um að landsbyggðin muni hugsanlega missa frá sér eitthvert vald þegar kemur að jöfnu atkvæðavægi því að í þremur kjördæmum úti á landi eru menn með tvö atkvæði að jafnaði miðað við þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfur kem ég ekki auga á hversu vel þetta aukna atkvæðavægi hefur gagnast landsbyggðinni, ef maður heyrir í þingsal talað meira um eitt en annað er það einmitt vandi landsbyggðarinnar.

Ég lít á mig sem þingmann alls landsins og tala jafnt um málefni Suðvesturkjördæmis, Reykjavíkurborgar, landsbyggðarinnar og alls landsins. Ég held að það sé skylda þingmanna.

Því er velt upp í tillögu stjórnlagaráðs að kjördæmin megi vera átta. Það er ekki lagt til að landið verði eingöngu eitt kjördæmi heldur megi kjördæmin vera allt að átta. Sú tillaga tekur mið af svæðisstjórnum sveitarfélaga sem nú eru til staðar. Hugmyndin þar á bak við er einmitt sú, eins og fram kemur í frumvarpinu, að færa í staðinn sveitarstjórnunum meira vald sem og svæðisstjórnum sveitarfélaga. Það er hugmyndafræði sem ég styð innilega því að ég hef sjálfur engan sérstakan áhuga á því að fólk úti á landsbyggðinni hafi minni völd en aðrir í landinu. Þetta er hugmynd sem við þurfum að skoða vel og ýta undir, að svæðisstjórnir sveitarfélaga hafi óskoraðan umsagnarrétt um lagasetningu á Alþingi. Það mætti hugsa sér það og að kjördæmin verði með þeim hætti sem lýst er og jafnvel átta til að styðja við þá hugmyndafræði.

Beint lýðræði er einnig mjög mikilvægur þáttur og þar hafa menn mikið talað um hvað þarf margar undirskriftir. Ég bendi á að það er gríðarleg vinna að safna undirskriftum 10% atkvæðisbærra manna. Ég hef tekið þátt í því sjálfur. Hér á ég við undirskriftir á blaði. Þess vegna er verið að tala um þetta 10% lágmark. Ef menn eru að tala um rafrænar undirskriftir horfir málið öðruvísi við og þá þurfa menn að velta fyrir sér hvaða leiðir verði farnar í því. Eins og fram kemur í gögnum með málinu verður þetta ákvæði óvirkt ef það á að auka hlutfallið úr 10% og þá verður ekki hægt að nota það þannig að við megum ekki fara þá leið.

Hvað varðar persónukjör og flokka hef ég talað fyrir því að það verði tekið upp persónukjör, ekki síst núna þegar prófkjör fjórflokksins eru í algleymingi. Þingmenn nota vinnutímann alveg miskunnarlaust til að stuðla að eigin endurkjöri en þeir sem eiga að keppa við þá hafa ekki nándar nærri eins góða aðstöðu og sitjandi þingmenn. Þetta býr til misvægi og óréttlæti sem er hægt að laga með persónukjörsákvæðum, en það þarf að taka það til athugunar hvað það persónukjör á að ná langt og hvort það eigi að ná til þess að menn geti valið fólk úr framboðum fleiri en eins flokks. Stjórnmálaflokkar hafa hlutverk og tilgang og það þarf einfaldlega að huga vel að því.

Það síðasta sem ég mundi vilja ræða er auðlindaákvæðið og það hvernig Íslendingar hafa á undanförnum árum einfaldlega orðið leiguliðar í eigin landi vegna þess að það er verið að selja auðlindir landsins undir erlend yfirráð. Við höfum HS Orku og jarðhitann þar. Við höfum þá þróun sem á sér stað í nýtingu á veiðiréttindum í ám og vötnum úti um allt land þar sem erlendir auðmenn kaupa sér (Forseti hringir.) forgang fram yfir landsmenn þannig að víðtækt og gott auðlindaákvæði er í þessu (Forseti hringir.) samhengi líka mjög mikilvægt.