141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem dr. Þóroddur Bjarnason sagði hefur verið rengt af Þorkeli nokkrum sem sat í stjórnlagaráði. Þessi drög að stjórnarskrá munu veikja stöðu landsbyggðarinnar frá því sem nú er. Það hefur ekki verið rengt. Það eru verulegar líkur til þess að þingmaður sem ætti mikið bakland á höfuðborgarsvæðinu byði sig fram eftir þessa breytingu og tæki upp málstað lítilla dreifbýlla sveitarfélaga. Oft og tíðum snýst málið einmitt um að það þarf að veita fjármagn til þessara sveitarfélaga og kannski er ekki skilningur á því á höfuðborgarsvæðinu. Einmitt þess vegna er mikilvægt að styrkja stöðu þessara svæða. Þetta snýst ekki um að stilla þessu upp sem vinum eða óvinum landsbyggðarinnar.

Hv. þingmaður talaði um að undanskilja þjóðréttarskuldbindingar — (ÞSa: Lög.) lög sem eru leidd af þjóðréttarskuldbindingum — (Gripið fram í.) og ég spyr: Færi svo að Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu eða lögum sem heyrðu undir EES-samninginn, væri okkur heimilt að kalla (Forseti hringir.) eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvað af EES-lögunum nái þetta fram að ganga?