141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ein mínúta er ekki langur tími í svona mikilli efnislegri umræðu en ég vildi spyrja í fyrsta lagi um Lögréttu sem er tillaga um að Alþingi kjósi. Telur hv. þingmaður að Lögrétta sé hlutlaus þegar Alþingi kýs hana sjálft, og kýs jafnvel þingmenn í hana? Það er ekki einu sinni talað um að það sé bannað að hafa þingmenn í Lögréttu. Hvað gerist ef einhverjir flokkar á Alþingi kjósa í Lögréttu sem á svo að fara yfir til dæmis frumvörp frá stjórnarandstöðu?

Finnst ekki hv. þingmanni miklu eðlilegra að Lögrétta sé jafnvel fullskipaður Hæstiréttur? Þar er fólk með sérþekkingu í lögum og tæki ekki bara afstöðu til laga frá Alþingi eða lagafrumvarpa að beiðni ákveðins hluta þingmanna heldur líka til dómsmála sem kæmu upp í gegnum dómskerfið þar sem menn efast um að ákveðin lög standist stjórnarskrá. Þá yrði Lögrétta eins konar stjórnlagadómstóll.