141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:51]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Leiga á auðlind til langs tíma, til að mynda orku, jafngildir ekki eignaraðild, það er klárt mál. Það þýðir ekkert að vera að búa til einhver mynstur sem standast hvorki íslenska tungu né staðreyndir. Ég harma það í þessum ágætu vangaveltum hv. þingmanns að hann fer undan í flæmingi þegar maður spyr hvort ekki þurfi talsverðan tíma til að komast að niðurstöðu. Hv. þingmaður sagði að það þyrfti bara að útfæra hugmyndir um valdahlutfall sveitarfélaganna í landinu. Já, gerum það bara næstu helgi. Það er náttúrlega ekki hægt að tala svona vegna þess að við vitum að þessi breyting er mjög vandmeðfarin og flókin og mun strax kalla á alls konar væringar milli landshluta, hvort sem það er í dreifbýli eða þéttbýli. Þess vegna þarf tíma í þetta og það þýðir (Forseti hringir.) ekkert að ætla sér annað.