141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:10]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir andsvarið.

Ég á ekki sæti í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en ég vænti þess að það sé allt satt og rétt sem hv. þingmaður segir, ég hef ekki vænt hana um neitt annað, að rétt sé að þessir fundir hafi verið haldnir. En svo mikið veit ég að efnisleg umræða í nefndinni hefur ekki verið mikil eða þá viðbrögð við komu gesta og álitum þeirra sem lögð hafa verið þar inn. Þau viðbrögð sem komið hafa frá helstu sérfræðingum landsins í stjórnskipunarrétti á síðustu tveimur, þremur vikum styrkja mig í þeirri trú að sagt sé satt og rétt frá. Ég sat málþing í Háskólanum í Reykjavík og viðbrögð margra þeirra sem þar töluðu gagnvart því frumvarpi sem hér liggur fyrir komu mér verulega á óvart, þ.e. hversu hörð þau voru. Það styrkir mig enn frekar í þeirri trú og ég leyfi mér að halda því fram að nefndin hefði átt að rýna frumvarpið betur áður en hún lagði það fram. Það væri raunar fróðlegt að heyra viðbrögð hv. þingmanns við þeirri gagnrýni sem frumvarpið hefur hlotið.

Það er gott til þess að vita að málið er í undirbúningi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem hún óskar álits Feneyjanefndarinnar. Ég mundi líka gjarnan vilja heyra hvenær hv. formaður nefndarinnar reiknar með að það verði fullbúið, því að það tekur sjálfsagt tíma að þýða allt málið, greinargerðin er t.d. ærin að vöxtum. Það væri æskilegt að heyra hvenær hv. formaður reiknar með því að málið fari út fullbúið frá okkur.