141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig óendanlega að þingmaðurinn haldi ekki að ég segi ósatt í þessum ræðustól, ég er mjög fegin því.

Ég hef margsagt það í ræðustól að það er ekki hægt að hefja efnislega umræðu um mál þegar stjórnarandstaðan segir ýmist: Ég er á móti 114 greinum, eða: Þetta á allt að fara í tætarann. Ég er alla vega ekki sú galdrakona að ég geti komið af stað efnislegri umræðu við slíkar aðstæður. En nú er málið komið fyrir þingið og hafin er efnisleg umræða um það. Ég á sannarlega von á því að hún haldi áfram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og öllum öðrum nefndum þingsins.

Ég á von á því að ég geti farið með það sem Feneyjanefndin þarf til að rýna málið, á þann fund sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur verið boðaður á. Síðan koma fulltrúar frá nefndinni hingað og ræða við þá sem þeir telja að þeir þurfi að ræða við. Ég geri ráð fyrir að allir sem óska eftir að ræða við þá fulltrúa muni gera það.