141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, formanni nefndarinnar, fyrir ágæta ræðu. Hún undirstrikaði það sem ég hef haldið fram og mjög margir. Við vitum náttúrlega að Alþingi Íslendinga er stjórnlagaþing, 79. gr. stjórnarskrárinnar segir það. Það breytir enginn stjórnarskránni nema Alþingi Íslendinga.

Hv. þingmaður ætlar að hlusta á allar hugmyndir um breytingar sem eru skynsamlegar. Þá vildi ég byrja á því að spyrja einnar einfaldrar spurningar: Kæmi til greina að senda hugmyndir mínar um breytingar á stjórnarskrá með þröskuldum og hafa þá spurningarmerki við þröskuldana, háa eða lága hjá Alþingi eða þjóðinni, til Feneyjanefndarinnar á vegum hv. nefndar sem hv. þingmaðurinn stýrir?

Síðan varð ég dálítið dapur. Ég hafði lagt töluvert mikla og verulega vinnu á síðasta vetri, í jólafríinu og í janúar, í að koma með efnislegar breytingar við mjög margar greinar, 80 eða 100 greinar. Sumar voru rökstuddar mjög nákvæmlega, t.d. með ríkisborgararéttinn. Það er ekki tekið mið af þeim. Ég sagði að ef svona regla um ríkisborgararétt ætti að gilda almennt sætum við eftir nokkra mannsaldra með fólk sem væri með tvöfaldan, fjórfaldan, sexfaldan, fjórtánfaldan, þrjátíuogtvöfaldan eða sextíuogfjórfaldan ríkisborgararétt. Getur virkilega verið meiningin að hafa það þannig? Ég var með breytingartillögu um það að við 18 ára aldur skyldi viðkomandi velja sér ríkisborgararétt til að stöðva slíka verðbólgu í ríkisborgararéttum. Þetta var ekki tekið inn. Fjöldi annarra atriða, eins og það sem stendur um að friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skuli tryggð — tryggð af hverju? Af hverju stendur ekki einfaldlega að einkalíf, heimili og fjölskylda séu friðhelg? Þá liggur það fyrir. Það þarf enginn að tryggja það. Svo er sagt á fjölmörgum stöðum að eitthvað skuli tryggja með lögum, t.d. framfærslu barna. Mér finnst miklu betra að segja bara að börn eigi rétt á framfærslu.