141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Nú í vikunni var haldinn fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins. Nefndin var sett á laggirnar samkvæmt tillögu í meirihlutaáliti Alþingis þegar aðildarumsóknin um aðild að Evrópusambandinu var send inn. Það var gert til að tryggja aðkomu þingsins og þátttöku í viðræðunum.

Ég verð að byrja á jákvæðum nótum, ég tel afar mikilvægt að nefnd þessi starfi vegna þess að upplifun mín af fundi um þessi mál í Strassborg í vikunni var sú að þingmenn á Evrópuþinginu, og ekki síður stækkunarstjóri Evrópusambandsins, voru ekki alveg með það á hreinu hvernig andrúmsloftið á Íslandi væri. Ég held að þessir aðilar fái ekki alla jafnan skilaboðin beint í æð eins og á fundinum í Strassborg.

Skoðanaskipti voru góð, umræður voru góðar. Við spurðum ýmissa spurninga. Stækkunarstjóranum, Stefan Füle, taldist til að 21 spurningu hefði verið beint til hans sem hann svaraði reyndar ekki heldur flutti hann frekar almenna tölu áður en hann þurfti að yfirgefa fundinn. Füle ætlar að senda okkur svörin skriflega og við munum ganga eftir því, þar á meðal við spurningum eins og hvenær sjávarútvegskaflinn verði opnaður og öðrum sem snúa beint að viðræðunum.

Ég ítreka mikilvægi þess að Evrópuþingið og Evrópusambandið (Forseti hringir.) fái að heyra báðar hliðar þessa máls, hver raunveruleg staða (Forseti hringir.) aðildarumsóknarinnar er á Íslandi, ekki bara einhliða mærðarræður (Forseti hringir.) frá íslenska utanríkisráðuneytinu.