141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú berast af því fréttir að hjúkrunarfræðingar segi unnvörpum upp störfum hjá ríkinu og tel ég það mjög alvarlegar fréttir. Íslenska ríkið og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga undirrituðu síðast kjarasamning við fjármálaráðherra 4. júní 2011. Í þeim samningi segir að stofnanasamningur sé hluti af kjarasamningi. Stofnunarsamningar hafa ekki verið endurnýjaðir eins og loforð voru gefin um hjá fjármálaráðherra og er það m.a. þess vegna sem uppsagnir eiga sér stað á heilbrigðisstofnunum og spítölunum.

Þingflokkur Framsóknarflokksins brást við því nú á dögunum og fékk Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga til sín á þingflokksfund til að fara yfir stöðuna. Þar kom fram að launaflokkar ríkisins eru 18 en hjúkrunarfræðingar eru fastir í flokki 6 og 7, sem er mjög alvarlegt því að með einu handtaki er hægt að hækka þessa stétt um flokka og verðmeta þau störf rétt sem hjúkrunarfræðingar vinna.

Það vakti sérstaka athygli mína að starfsmenn Stjórnarráðsins, sem eru með sambærilega menntun og hjúkrunarfræðingar, hafa hækkað um tæp 22% á þessu tímabili. Hér er því mikil mismunun á ferðinni, virðulegi forseti.

Það er einkar sérkennilegt í ljósi þess að þessi ríkisstjórn fór fram með mikil loforð um launajafnrétti, að konur og karlar skyldu fá svipuð laun fyrir sambærileg störf. Það skyldi þó ekki vera að hjúkrunarfræðingar, þessi fjölmenna kvennastétt sem telur rúmlega 2.000 manns, sitji eftir hjá norrænu velferðarstjórninni vegna þess að það eru konur sem þiggja þessi laun?