141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við höfum nokkuð fjallað um endurútreikning gengislána og er ástæða til að fagna ánægjulegum fréttum frá Íslandsbanka í gær en bankinn hefur ákveðið að endurreikna 8 þús. lán auk þeirra 6 þús. lána sem áður hafði verið ákveðið að endurreikna. Það þýðir að Íslandsbanki endurreiknar 14 þús. lán hjá sér. Gengið er fram með líkum hætti og Arion banki gerir sem hefur ákveðið að endurreikna bæði lengri og skemmri lán hjá sér, en því miður stendur enn á einum viðskiptabankanna, þ.e. Landsbankanum sem hefur ákveðið að endurreikna aðeins 2–3 þús. lán. Má segja að staðan á milli þessara banka sé þá um það bil 14:2. Það er auðvitað óviðunandi að stærsti viðskiptabanki landsins sé með tugi þúsunda samninga undir og sé ekki tekinn til við að endurreikna nema lítið brot af þeim þegar gengnir eru ítrekaðir dómar í Hæstarétti og október er liðinn og nóvember að verða liðinn.

Ég hef gert ráðstafanir til þess að viðskiptabankarnir, Lýsing og Drómi, komi fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á þriðjudaginn og geri grein fyrir stöðu þessara mála hjá sér. Við hljótum að vonast eftir því að næsta vika færi okkur, eins og þessi vika, fréttir af bönkum sem tekið hafa ákvarðanir um að endurútreikna þúsundir og aftur þúsundir af lánasamningum því að það á að endurreikna þá samninga. Dómar eiga standa.