141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þau sjónarmið og þá brýningu sem komið hefur fram hjá ýmsum þingmönnum hvað varðar það að eyða þeirri meinsemd sem kynbundinn launamunur er, að við beitum okkur fyrir samstilltu þverpólitísku átaki til að útrýma honum. Það er óþolandi að við séum enn að kljást við hann á þeirri öld sem nú er.

Ég kveð mér hins vegar hljóðs til að taka á allt öðru máli úr allt annarri átt. Það er mál sem ég stóð fyrir sérstakri umræðu á á sínum tíma og varðar velferð dýra. Fyrir liggur þinginu mikilvægt frumvarp um velferð dýra þar sem ýmsar réttarbætur er að finna. Ég og fleiri þingmenn sem kvöddum okkur hljóðs á sínum tíma töluðum öll fyrir því hversu mikilvægt það væri að Alþingi tæki af skarið og styrkti stoðir þess umhverfis sem leitast við að tryggja betur velferð dýra.

Ég hefði gjarnan viljað fá þetta mál inn í umhverfis- og samgöngunefnd en ég vil hvetja atvinnuveganefnd til að greiða götu þess hið fyrsta en fara jafnframt ofan í saumana á því sem enn þarf að bæta í frumvarpinu og það sem er borið út af því sem sérstök nefnd lagði til. Það varðar m.a. geldingu grísa og drekkingu minka. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé bætt og að í framhaldinu séu lagðar línur um það hvernig við ætlum að taka á verksmiðjubúskap, á kerfisbundinni, óþolandi vanvirðingu í garð dýra og líðan þeirra. Það er einn grunnþátturinn í samfélaginu að mínu mati (Forseti hringir.) að við sýnum mannúð og virðingu fyrir vellíðan dýra á allan hátt.