141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í gær hlýddum við á umræðu um stöðu þjóðarbúsins. Ég saknaði þess í þeirri umræðu að enginn hafði litið á málið heildstætt. Vandinn felst í eignum erlendra kröfuhafa hér á landi, bæði vegna gamalla jöklabréfa og vegna föllnu bankanna.

Ef maður lítur á heildarmyndina er þetta um það bil þannig að kröfuhafarnir eiga á Íslandi 2.000 milljarða í gjaldeyri og 1.200 milljarða í krónum, samtals 3.200 milljarða, gífurlegar fjárhæðir. Ef það tækist að fá niðurfellingu á því um 20% væru það um 600 milljarðar og það mundi leysa krónuvandann að miklu leyti, af því að það kæmi inn á krónuvandann. Þetta er mjög mikilvægt og varðar eiginlega þjóðaröryggi að við höfum tangarhald á þeim 2.000 milljörðum sem eru í eigu þrotabúanna og notum það sem þátt í því að semja við kröfuhafana um lausn á vandanum.

Ég hef spurt um hvað íslenskt þjóðarbú geti framleitt mikinn gjaldeyri, það er ný hugsun. Ég spurði Seðlabankann að því fyrir nokkru síðan, það eru tvær, þrjár vikur síðan, því að við getum ekki greitt kröfuhöfunum nema við framleiðum til þess gjaldeyri með útflutningi á fiski, á áli, á ferðamannaþjónustu.

Ég tel mjög brýnt að þingmenn allra flokka standi saman að því að leysa málið. Þetta er miklu stærra mál en svo að það varði einhverja flokkshagsmuni eða prófkjör eða jafnvel kosningar. Þetta er eitthvað sem við verðum að leysa saman á hinu háa Alþingi og ég vil gjarnan að menn sjái myndina í heild sinni. Við megum ekki missa tökin á þeim 2.000 milljörðum sem eru í erlendum gjaldeyri og eru eignir þrotabúanna.