141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í Fréttatímanum í dag er frétt þar sem vitnað er í Norrænu hagtölubókina frá 2012 sem kom út í fyrradag. Þar er samanburður á útgjöldum til heilbrigðis- og menntamála Norðurlandaþjóðanna á hvern íbúa. Fram kemur að við verjum minnst allra í þessa málaflokka og í fréttinni er haft eftir forstjóra Landspítalans að framlög til heilbrigðismála séu fjórðungi lægri nú en fyrir fimm árum. En það sem vekur athygli mína er að við verjum mest allra Norðurlandaþjóða til menningarmála.

Virðulegi forseti. Við þurfum að forgangsraða. Án þess að ég geri lítið úr mikilvægi menningar fyrir okkur finnst mér að við þurfum að velja og hafna og forgangsraða þegar staða ríkissjóðs er eins þröng og raun ber vitni. Ég vildi koma því á framfæri þar sem er enn verið að vinna við fjárlagagerðina. Það hlýtur að vekja meiri hlutann til umhugsunar um það þegar skera þarf niður hvar við skerum niður og í hvað við setjum peningana.

Einnig væri forvitnilegt að skoða og bera saman tölur á framlögum til löggæslu sem svo mikið hafa verið í umræðunni. En spurningin er alltaf: Hversu mikla peninga höfum við og í hvað eigum við að setja þá? Það er þessi forgangsröð sem alltaf er verið að ræða. Peningarnir hljóta að þurfa að fara í grunnþjónustu, í heilbrigðismál, í menntamál, í löggæslu, eitthvað sem við getum ekki verið án.

Að sjálfsögðu vil ég að við setjum peninga í menningu en við þurfum aðeins að skoða hvað er að gerast fyrst staðan er orðin svona.