141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[11:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vekja athygli á öðru máli er tengist þessu Evrópubrölti öllu saman. Ég verð að segja að ég hef nokkrar áhyggjur af því. Við vitum að háskólasamfélagið hefur oft verið gagnrýnt fyrir náin samskipti við atvinnulífið og ég hef ekki alltaf verið sammála því. Ég held að það sé mjög gott fyrir háskólasamfélagið.

Svo fer maður að velta hlutunum fyrir sér. Nýverið óskuðu samtök sem heita Þjóðráð eftir samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um að standa fyrir málþingi. Því var hafnað af hálfu Alþjóðamálastofnunar. Ég velti því fyrir mér hvort þeir sem sitja í stjórn þeirrar ágætu stofnunar og ég ætla, frú forseti, að vera býsna hreinskilinn, hafi of mikil áhrif á það hvernig hún starfar. Í stjórninni er ágætisfólk. Þarna eru fulltrúar háskólans sem ég geri engar athugasemdir við, prýðisfólk allt saman. Síðan er í stjórn stofnunarinnar deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu, forseti Alþýðusambands Íslands og fyrrum formaður eða framkvæmdastjóri Já Íslands. Ég velti því fyrir mér hvort stofnunin geti talist sérstaklega óháð með þá þrjá kumpána í stjórn hennar. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég efast um það. Ég hef miklar áhyggjur af því að þeir þrír sem allir vinna að inngöngu Íslands í Evrópusambandið hafi rík áhrif og mikil á það hvernig stofnunin starfar. Það er slæmt og að mínu viti ekki til eftirbreytni. Ég skora hreinlega á þá að segja sig úr stjórninni og að aðrir verði skipaðir þarna inn til að auka trúverðugleika hennar.