141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Í samræðustíl sandkassanna um það hvor pabbinn sé sterkari ætla ég strax að gefast upp fyrir Jóni Gunnarssyni. Pabbi þinn er örugglega miklu og þúsund sinnum sterkari en pabbi minn. (JónG: Þekkirðu hann? Ha?)

Forseti. (Gripið fram í.) Jón Gunnarsson getur ekki annað en tekið hlutina bókstaflega.

Spurningin er hins vegar hvort hv. þm. Jón Gunnarsson er sammála 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, þeim hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Árna Johnsen, því að eina aðfinnsla þeirra við þetta ferli er um kostina sex sem settir eru í bið að lokum en voru í orkunýtingarflokki í drögunum að tillögunni. Sú breyting er ekki stórkostlegri en svo að það eru sex kostir, eða fimm og hálfur má kalla, af 67. Ef þessi biðflokksfærsla rústar sáttinni og samkomulaginu og gerir það að ekki er hægt að tosa Ísland upp úr því hrunástandi sem (Forseti hringir.) Jón Gunnarsson sjálfur og félagar hans komu landinu í (Forseti hringir.) þá er eitthvað að.