141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:45]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér í stuttu andsvari vil ég fyrir það fyrsta fagna því að rammaáætlun skuli komin til síðari umræðu á Alþingi þó svo að skiptar skoðanir séu um niðurstöðuna sem eru lagðar til úr nefndarvinnu. Nefndarvinnan hefur gengið ágætlega, mikið af umfjöllun, og nefndin fengið til sín gesti. Við erum sem sagt á þeim lokaferli og vonandi klárast hann.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í, framsögumann umhverfis- og samgöngunefndar, er úr ferlinum. Alveg eins og það komu fram rök sem ég hef fallist á, laxarökin gagnvart Urriðafossi, komu líka fram rök í ferlinum um t.d. Hólmsárvirkjun neðri við Atley. Í þingsályktuninni stendur, með leyfi forseta, að hún sé sett í biðflokk:

„Rökstuðningur: Mat faghópa var ekki byggt á nýjustu gögnum. Óvissa er með áhrif á skóglendi og hvar línulögn mun liggja. Vantar frekari upplýsingar.“

Virðulegi forseti. Í vinnuferli nefndanna komu fram athugasemdir um það frá aðilum og toppurinn á því var auðvitað þegar okkur barst minnisblað frá orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins dagsett 5. janúar 2012 þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Líta ber svo á að gæði gagna séu fullnægjandi og því ekki þörf á frekari upplýsingu til að unnt sé að raða virkjunarkostinum annaðhvort í orkunýtingarflokk eða verndarflokk. Með vísan til röðunar verkefnisstjórnar og könnunar verkefnisstjórnar eru því rök til þess að færa Hólmsárvirkjun neðri við Atley úr biðflokki í orkunýtingarflokk, þar sem fullnægjandi upplýsingar eru til staðar.“

Mín spurning til hv. þingmanns er sú: Af hverju var ekki fallist á þau rök sem hér komu fram? Nýjar upplýsingar sem eru réttar alveg eins og upplýsingarnar sem ég tók fram um það tiltekna atriði, laxarökin í Urriðafossi. Mér finnst, virðulegi forseti, að í meðförum Alþingis sé það (Forseti hringir.) skylda okkar að hlusta á öll rök sem koma fram, gæði gagna og fleira og (Forseti hringir.) að við þurfum að taka ákvörðun í framhaldi af því.