141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:49]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ráðherrarnir tóku rökin varðandi Urriðafoss og laxarökin sem komu mjög seint frá Orra Vigfússyni. Þau gögn sem ég er að vitna í komu líka, mér kemur það mjög á óvart ef hv. þingmaður er ekki með þau gögn vegna þess að hann sat sama fund og ég þar sem óskað var eftir þeim. Hann hlýtur að hafa fengið nákvæmlega sömu gögn og ég, þau voru send til beggja nefndanna.

Hv. þingmaður bað þess vegna aukalega um minnisblöð frá umhverfisráðuneytinu, þau bárust líka. Allt eru þetta gögn í málinu. Ég verð bara að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, það er hluti af því sem skemmir þennan feril að mínu mati. Við tökum ekki öll gögn sem koma inn jafngild. Í því ferli, virðulegi forseti, hef ég komist að niðurstöðu um hluti sem eru í biðflokki í dag sem ég er alveg sannfærður um að eiga að fara beint í verndarflokk. Ég hef myndað mér sjálfstæðar skoðanir í allar áttir en tek það ekki bara í eina átt. Ég harma það að á vegum nefndarinnar skuli (Forseti hringir.) gögnin fyrir þá virkjun sem er hugsuð til almenningsveitna, Orkusölunnar, (Forseti hringir.) ekki hafa verið tekin jafn gild og laxarökin varðandi Urriðafoss.