141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Undir hana ritar sá sem hér stendur, Ásmundur Einar Daðason.

Það var fróðlegt að heyra meirihlutaálit nefndarinnar og hlýða á framsögumanns málsins, hv. þm. Mörð Árnason. Það var líka fróðlegt að verða vitni að þeim orðaskiptum sem fóru hér fram, m.a. milli hv. þingmanns og félaga hans, hv. þm. Kristjáns L. Möllers.

Hugmyndin á bak við áætlanir sem þessar er ágætlega rakin í meirihlutaálitinu, tildrög áætlunarinnar og hvernig hugsunin á bak við hana er. Það er óhætt að hrósa hv. þm. Merði Árnasyni fyrir það. Það er gríðarlega mikilvægt að samstaða og sátt náist um þessi mál og að ólík sjónarmið, þ.e. sjónarmið nýtingar og sjónarmið verndar, nái saman í áætlun sem þessari. Við þekkjum það í sögunni að gríðarleg átök hafa verið um þessi mál og þess vegna er þetta ferli svo mikilvægt og hugmyndafræðin á bak við það til að slá á þetta og til þess að ólíkir hópar og ólík sjónarmið geti náð að sættast á miðri leið.

Þegar verkefnisstjórn hafði þetta undir í vinnu sinni fór fram gríðarlegt samráð. Það voru kynningarfundir, samráðsfundir, ráðstefnur o.s.frv. Þetta er allt saman rakið bæði í nefndaráliti meiri hlutans og í tillögunni sjálfri til þingsályktunar.

Þegar verkefnisstjórnin síðan skilaði af sér sumarið 2011 tók við 12 vikna umsagnarferli. Gott og vel, það var mikið talað um það, m.a. af hálfu hæstv. umhverfisráðherra, að þetta umsagnarferli væri gríðarlega mikilvægt til að eiga samræður við almenning o.s.frv. Á forsendum þessa umsagnarferlis og þess hversu margar umsagnir bárust taldi hæstv. umhverfisráðherra mjög mikilvægt að taka þetta mál til athugunar. Eftir að umsagnarferlinu lauk haustið 2011 lá málið hjá ráðherranum í nærri hálft ár. Margar fyrirsagnir eru til þar sem hæstv. umhverfisráðherra vitnaði meðal annars til þess að mjög margar mikilvægar umsagnir hefðu borist. Talað var um að fleiri hundruð umsagnir hefðu borist.

Á vef umhverfisráðuneytisins segir meðal annars, með leyfi herra forseta:

„Síðustu 12 vikurnar hefur staðið yfir opið samráðs- og kynningarferli um drög að þingsályktun iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra um verndun og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði. Umsagnarferlinu lauk á miðnætti og bárust um 200 umsagnir …“

Þetta voru rökin fyrir því að lagðar voru til breytingar á hinni svokölluðu faglegu vinnu verkefnisstjórnarinnar sem skilað var til ráðherranna. Sé gluggað í þessar umsagnir kemur meðal annars í ljós að þarna eru fjöldapóstar sem sendir eru að utan, frá erlendum einstaklingum. Þeir skipta einhverjum tugum og þar er talað um að menn vilji ekki ráðast í ákveðnar virkjanir og hvetja til þess að þeim kafla verði breytt. Á forsendum meðal annars þessara fjöldapósta velktist málið um á milli ráðherranna og í ríkisstjórn í hálft ár. Í hálft ár frá því að faglegri vinnu lauk velktist þetta mál um í ríkisstjórninni og við fengum reglulega af því fréttir að mikil átök væru um það. Fyrirsagnir voru meðal annars: „Enn bólar ekkert á rammaáætlun“, „Engin sátt í augsýn um lokaútfærslu rammaáætlunar“ og „Mikið reiptog á bak við tjöldin“. Þetta eru allt fyrirsagnir sem birtust á þessu hálfa ári í fjölmiðlum þar sem verið var að ræða þetta mál. Greinilega var mikið reiptog á bak við tjöldin á milli ríkisstjórnarflokkanna og átök um að breyta þessum tillögum verkefnisstjórnarinnar.

Þegar þessu var skilað var því skilað inn til þingsins á síðasta degi áður en lokað var fyrir þingmál í fyrravor. Á síðasta degi síðasta vor var þessu máli skilað inn og þá lá alveg ljóst fyrir að ekki var nokkur möguleiki að klára málið á því vorþingi. Það þýðir að nú er liðið ár frá því að verkefnisstjórnin skilaði tillögum sínum og nú, ári síðar, erum við að ræða þetta mál.

Virðulegi forseti. Það lá ljóst fyrir þegar þetta mál kom fram að þær breytingar sem höfðu verið gerðar á því gerðu það að verkum að það var vikið frá vinnu verkefnisstjórnarinnar. Það hefur komið skýrt fram í umræðunni að þær breytingar sem ráðist var í stuðluðu að því að vikið var frá hinni faglegu vinnu sem verkefnisstjórnin vann og sem var búið að leggja svo mikla fjármuni í, einmitt við það að sætta ólík sjónarmið í málinu.

Þegar málið kom inn til atvinnuveganefndar í vor fór það til umsagnar. Þegar mælt var aftur fyrir því í haust lá ljóst fyrir, m.a. hjá framsögumanni málsins, hv. þm. Merði Árnasyni, sem hefur haldið á því af mikilli elju, að ekki væri vilji til að breyta þessari þingsályktunartillögu með nokkrum hætti, þ.e. þeirri sem hæstv. umhverfisráðherra lagði fram. Þegar beiðni kom fram um að vísa málinu til atvinnuveganefndar, sem hafði haft málið til umsagnar, bar atkvæðagreiðslan í þinginu þess líka merki að ekki væri vilji til þess að breyta málinu neitt. Það lá alveg fyrir þegar málið var komið til nefndarinnar að það var ekki vilji til annars en að málið yrði afgreitt í óbreyttri mynd.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði er gríðarlega mikilvægt að viðhöfð séu fagleg vinnubrögð við þetta mál til að áætlanir sem þessar, sem eiga að sætta ólík sjónarmið, hafi það í för með sér að unnið sé að þeim á faglegan hátt frá fyrsta degi. Það er mikilvægt til þess að við lendum ekki í því að áætlanir sem þessar séu einungis til fimm, sex mánaða. Hvaða líkur eru til þess, þegar áætlun sem þessi er samþykkt í svona miklum ágreiningi með breytingum frá faglegri vinnu, að horft verði til þess og unnið út frá því? Eru ekki meiri líkur, herra forseti, til þess að málið verði þá einfaldlega tekið upp strax á næsta kjörtímabili?

Fyrsti minni hluti batt miklar vonir við að vinna faghópa og verkefnisstjórnar mundi skila niðurstöðum sem væru byggðar á faglegum sjónarmiðum. Í meginatriðum voru það ekki vonbrigði fyrr en í ljós kom að tillaga ráðherra var ekki í samræmi við undirbúningsgögnin, þ.e. vinnu verkefnisstjórnarinnar. Mat 1. minni hluta er að hún muni ekki skapa þá sátt sem nauðsynleg hefði verið. Stjórnmálaleg sjónarmið virðast hafa ráðið ferðinni þegar málið var í höndum ráðherra. Með því gekk málið úr réttum farvegi. Ekki verður annað séð en að önnur lögbundin undirbúningsvinna tillögunnar hafi verið vönduð. Af þeim sökum er það álit 1. minni hluta að staldra beri við og kanna hvort ekki sé fært að lagfæra það sem aflaga hefur farið, tillagan verði unnin á ný með niðurstöður og ályktanir verkefnisstjórnar að leiðarljósi. 1. minni hluti leggur til að þessari tillögu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar þar sem þessi vinna verði höfð að leiðarljósi.

Ég vil bara segja aftur, virðulegi forseti, að það er gríðarlega mikilvægt að víðtæk sátt náist milli verndar- og nýtingarsjónarmiða. Til að sú sátt náist þarf að virða það ferli sem lagt var upp með í upphafi. Það byggir á því að vega og meta á faglegan hátt þau gögn sem liggja fyrir og komist sé að ákveðinni niðurstöðu.

Sú töf sem orðið hefur á málinu er heldur ekki til góðs og það er áhyggjuefni að við skulum horfa upp á það að hvert málið á fætur öðru sem mögulegt á að vera að vinna í breiðri sátt og samstöðu þar sem allir gefa eftir sé ítrekað unnið þannig að ekki er mögulegt að ná slíku fram. Við sjáum það ekki eingöngu í þessu máli, við sjáum það í fleiri málum. Þetta er meðal þess sem veldur því að stuðningur almennings við þingið, okkur þingmenn og þau störf sem viðhöfð eru hér inni, hefur farið þverrandi. Við eigum í auknum mæli að leita eftir samstöðu um mál og horfa til þess að mál séu unnin með þeim hætti að það náist um þau víðtækari sátt. Það hefur ekki verið gert í þessu máli og ég held, virðulegi forseti, að það muni leiða til þess að þessi rammaáætlun verði einungis til sex mánaða.