141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir þau orð þingmannsins að óþörf töf hafi orðið á þessu máli og skora á hann að tryggja með mér að sú töf verði ekki lengri, heldur að þetta mál nái fram. Ég minni á að rammaáætlun kemur fram aftur ekki síðar en eftir fjögur ár og líklega fyrr ef farið verður að áskorunum í gögnum hér, athugasemdum ráðherra við tillögu sína og í nefndarálitinu um að endurskoða ákveðna þætti. Þegar liggur fyrir að farið verður að þeim vilja hv. þingmanns að staldra við. Það er staldrað við með sex kosti af 67, þeir eru settir í biðflokk í staðinn fyrir að tekin sé um þá ákvörðun nú þegar. Ég tek undir að þegar um slíkt er að ræða ber einmitt að staldra við.

Að hluta til getum við verið að taka ákvarðanir sem eru algjörlega óafturkræfar, ákvarðanir sem næstu kynslóðir og allar þær kynslóðir af Íslendingum sem maður getur hugsað sér koma ekki nálægt vegna þess að þær spilla þeim náttúrugæðum sem um getur verið að ræða. Það er ákvörðun sem menn verða að taka mjög alvarlega og í ljósi allra upplýsinga og gagna og með því að meta öll þau rök sem til greina koma þegar menn fara í umhverfisspjöll af þessu tagi. Það skildu menn ekki áður, það er eðlilegt, þá töldu menn að þetta væri nánast óendanlegt og skipti kannski litlu máli. Það er hugsun sem við getum ekki leyft okkur að hugsa.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki alveg réttur skilningur hjá mér að hann telji miðað við verkþættina sex að það sé í fimmta verkþættinum, þegar ráðherrarnir koma að málinu, sem hafi orðið breyting úr hinu faglega starfi og til hins pólitíska, það hafi verið í lagi fram að því. Ég les það út úr nefndarálitinu og ræðunni en ég vil (Forseti hringir.) fá það staðfest hér í eitt skipti fyrir öll.