141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að staðfesta að hann telur að í þeim fimm verkþáttum sem þegar er lokið af rammaáætluninni hafi farið fram fagleg vinna í fyrstu fjórum verkþáttunum, en í hinum fimmta, þegar málið kom til ráðuneytis, hafi hafist pólitísk vinna. Ég er ekki sammála því.

Nú má kannski segja að eðlilegt sé að hin pólitísku sjónarmið vaxi í vægi eftir því sem á líður ferli af þessu tagi.

Í ráðuneytum eru teknar pólitískar ákvarðanir. Þess vegna höfum við eins skýra aðgreiningu og við getum milli annars vegar ráðuneyta þar sem stjórnmálamaður er sem nýtur stuðnings meiri hluta í þinginu og hefur valinn verið til forustu af þjóðinni, og hins vegar faglegra stofnana, rannsóknarstofnana, háskólastofnana o.s.frv. þar sem öðruvísi er litið á málin.

Menn geta séð hvað ég meina með því að fara í nefndarálit okkar meirihlutamanna. En ég fagna áliti hv. þingmanns því að ákvörðunin um Hólmsárvirkjun, sem mjög er rætt um í áliti 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar og í áliti hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar í atvinnuveganefnd, er ekki tekin í ráðuneytinu heldur í verkefnisstjórninni sjálfri. Hún er tekin að segja má í þriðja verkþætti málsins, mistök urðu og gögnin bárust of seint til þess að hægt væri að vinna með þau í rammaáætluninni vegna þess að þar er ekki tekin ákvörðun um hvern virkjunarkost fyrir sig. Kostirnir og svæðin eru metin saman. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga að ekki er hægt að taka eina ákvörðun út úr því (Forseti hringir.) ákvarðanaknippi sem ferlið byggist á.