141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég er sammála honum í meginatriðum í gagnrýni hans á alla málsmeðferðina og þá niðurstöðu sem lögð er fyrir okkur í dag. Ég vil fá álit þingmannsins á því sem hv. þm. Mörður Árnason sagði hér áðan, að tekið hefði verið tillit til samfélagslegra og pólitískra sjónarmiða. Er ekki hv. flutningsmaður meirihlutaálitsins þar með að staðfesta það sem við höldum fram, að pólitísk sjónarmið hafi ráðið ferð?

Hv. þm. Mörður Árnason sagði einnig að aldrei hefði verið stigið eins stórt skref í friðunarferli á Íslandi og að sátt væri um leikreglurnar. Hann bætti svo við síðar að það væri kannski meðal þeirra sem helst um þessi mál fjalla. Hvað segir hv. þingmaður um þau sjónarmið hv. þm. Marðar Árnasonar?

Hjá hv. þm. Merði Árnasyni kom einnig fram að það væri alvarlegt ef Alþingi tæki ákvörðun um breytingar á þessu stigi málsins og stigi þar með inn í það sem mætti halda að væri fagleg niðurstaða. En er það ekki einmitt hlutverk Alþingis að meta gögnin sem koma frá ráðherrum í þessu sambandi og leggja á þau mat og eins þær upplýsingar sem fram koma í umsagnarferlinu og vinna út frá því? Eða felst það í yfirlýsingu hv. þm. Marðar Árnasonar (Forseti hringir.) að þingnefndir og þingmenn séu (Forseti hringir.) bara verkfæri meiri hlutans, verkfæri ríkisstjórnarinnar til að (Forseti hringir.) stimpla mál á færibandi í gegnum þingið?

(Forseti (ÁÞS): Forseti minnir hv. þingmenn á að andsvörum á að beina að máli ræðumanns.)