141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þm. Jón Gunnarsson kemur inn á er í rauninni hið sama og umræðan hefur snúist um í morgun og hið sama og andsvörin við hv. þm. Mörð Árnason hafa snúist um. Það snýst einfaldlega um að hv. þm. Mörður Árnason viðurkenndi í máli sínu að hin pólitíska hönd hefði gripið inn í málið eftir að verkefnisstjórnin skilaði af sér. Fyrir því færði hann ákveðin rök. Síðan þegar kemur að sambærilegu máli varðandi Hólmsárvirkjun þar sem sömu rök hefðu átt að vera fyrir því að flytja þann virkjunarkost í átt til nýtingar þá var það ekki gert. Það segir okkur að vinnulagið á bak við áætlunina er pólitískt. Málin eru unnin pólitískt. Hin faglega vinna verkefnisstjórnarinnar var lögð til hliðar og hin pólitíska hönd greip inn í. Þegar búið er að leggja gríðarlega fjármuni, vinnu og annað í að reyna að ná faglegri niðurstöðu og sætta ólík sjónarmið nýtingar og verndunar er með öllu ótækt að vinnulag sé þannig að pólitísk hönd grípi inn í og færi kostinn í átt til verndunar.

Það er með sama hætti ef hin pólitíska hönd hefði gripið inn í og fært það í hina áttina. Hvorugt er til þess fallið að ná víðtækri sátt um málið. Það gerir það eingöngu að verkum að áætlun sem þessi er einungis unnin til sex mánaða. Hún er stefnumótunarplagg (Forseti hringir.) sitjandi ríkisstjórnar en hún er ekki til þess fallin að ná um hana breiðri samstöðu.