141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Ásmund Einar Daðason varðandi mögulegar afleiðingar þess fyrir samfélagið að við skulum fara þessa leið í rammaáætlun. Viðurkennt er af öllum helstu sérfræðingum, bæði erlendum sem innlendum, að rammaáætlun er grunnurinn að því að hér geti hafist beinar erlendar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi og það sé grunnurinn að því að við náum að koma hagvexti af stað að nýju, skapa hér ný störf og fara að vinna okkur upp úr þeim djúpu förum sem samfélagið er fast í.

Komin er út nýleg hagvaxtarspá frá Seðlabanka Íslands. Hún sýnir það að hagvöxtur fer minnkandi á Íslandi. Hagvöxtur átti samkvæmt upphaflegum áætlunum helst að vera á milli 4 og 5% um þessar mundir, á þessu ári og á síðasta ári, en hann hefur ekki tekið við sér. Við vitum að aðilar vinnumarkaðarins, hvort sem það er í samtökum verkalýðshreyfingarinnar eða Samtökum atvinnulífsins, horfa mjög til þess að fjárfestingar á þessum vettvangi fari af stað. En nú liggur það fyrir af hálfu orkufyrirtækjanna, þeirra sem eiga að vinna að virkjunum, að það verður stóra stopp á þeim vettvangi miðað við þá rammaáætlun sem ríkisstjórnin leggur nú fyrir þingið til lokaafgreiðslu. Það verður ekki hægt að fara af stað í neinar virkjanir á næstu árum umfram það sem komið er af stað nú þegar. Virkjunarferli tekur langan tíma. Það þarf að leita að kaupendum fyrir orkuna. Það þarf að undirbúa hana og fara í gegnum umhverfismat o.s.frv. Það eru eingöngu örfáir virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár tilbúnir í það ferli.

Ég vil því spyrja hv. þingmann um afleiðingar þessa fyrir efnahagslífið. Ég vil einnig spyrja hv. þingmann um hvað honum finnst um þær tillögur Sjálfstæðisflokksins að senda áætlunina (Forseti hringir.) til baka til verkefnisstjórnarinnar og fá þar fram hina (Forseti hringir.) faglegu vinnu sem allir viðurkenna í skýrslum og ræðum að hafi verið svo fagleg, (Forseti hringir.) og fá jafnframt niðurstöðu hennar á niðurröðun virkjunarkosta í (Forseti hringir.) flokka.