141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[13:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrri hluta andsvars hv. þingmanns er það að segja að það er ekki alveg, eins og hv. þingmaður þekkir, það sama að vera hugsanlega tilbúinn að sætta sig við og síðan að vera sammála. Ef byggt er á tillögu þar sem um er að ræða 67 mismunandi kosti geta verið ótal skoðanir á einstaka kostum í því sambandi. Það að sætta sig við einhverja niðurstöðu getur falið í sér samþykki en getur líka falið það í sér að menn einfaldlega séu tilbúnir að fórna meiri hagsmunum fyrir minni, tilbúnir að leggja eitthvað á sig, gefa eitthvað eftir af eigin skoðunum til að unnt sé að ná saman.

Á sama hátt og við hljótum báðir, við hv. þm. Mörður Árnason, að fagna því að það er í sjálfu sér ekki djúpstæður ágreiningur um mjög marga virkjunarkosti í þessum 67 kosta hópi megum við heldur ekki oftúlka það. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins völdum til dæmis, þannig að ég bara geti þess, þessa afstöðu en við áttum þann kost að leggja fram einstakar breytingartillögur með sama hætti og hv. þm. Atli Gíslason gerir, um að færa þennan kost upp og hinn niður og einn til hliðar. Við mátum að það væri betra að gera þá tillögu sem við gerðum í frumvarpinu í haust, að vísa málinu í heild aftur til verkefnisstjórnar til að fjalla fyrst og fremst um þá þætti sem eru umdeildastir sem breyttust eftir að verkefnisstjórn skilaði málinu frá sér þannig að verkefnisstjórn gæti lagt (Forseti hringir.) mat á það hvort einhverjar forsendur hefðu breyst frá því að verkefnisstjórn skilaði af sér í upphafi.