141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[13:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að fram hafa komið athugasemdir við ýmislegt í vinnubrögðum og niðurstöðum faghópa, verkefnisstjórnar og annarra aðila sem hafa verið að vinna þetta mál á fyrri stigum. Ekkert mannanna verk, hvorki á þessu sviði né öðru, er hafið yfir alla gagnrýni eða óumdeilt, það er auðvitað ekki svo. Hins vegar getum við orðað það svo að í starfi sem unnið var á vegum verkefnisstjórnar, hvort sem um var að ræða í faghópum, verkefnisstjórninni sjálfri eða síðar í formannanefndinni sem kom að málinu á síðasta stigi, var unnið með þeim hætti að ætla má að þar hafi verið ágætur grunnur að víðtæku samkomulagi þótt vissulega megi deila um einstök atriði í ferlinu og í niðurstöðunum, það má alltaf deila um slíkt. Þarna var kominn einhver heildarpakki þar sem var nokkuð gott jafnvægi, að því er mér sýndist, milli sjónarmiða annars vegar um nýtingu og hins vegar um vernd. En það sem ég var að reyna að segja í ræðu minni var fyrst og fremst það að þegar tekin er ákvörðun um að færa marga af hagkvæmustu kostunum, sem eru líklega næstir okkur í tíma, úr nýtingu í bið þá er jafnvæginu raskað mjög rækilega og þótt ekki væri nema út af þessum sex virkjunarkostum er málið sett í uppnám að mínu mati. Þess vegna hefur maður áhyggjur af (Forseti hringir.) framhaldi rammaáætlunar og framhaldi þeirrar aðferðafræði sem við héldum á sínum tíma að við værum búin að ná einhverri sátt um, alla vega á þessum vettvangi.