141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:23]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að það skorti upplýsingar. Hvernig hefur þekkingin á jarðvarmanum á Íslandi orðið til? Meðal annars með því frumkvöðlastarfi sem fyrirtækið Hitaveita Suðurnesja, nú HS Orka, hefur stundað í Svartsengi. Sérfræðingar fyrirtækisins hafa unnið það starf og ég vil fá að nefna Albert Albertsson sem er einstakur fræðimaður á þessu sviði. Þekkingin hefur orðið til með tilraunaborunum og starfsemi fyrirtækisins. Hvernig ætlast hv. þingmaður til að það verði framþróun og aukin þekking ef setja á alla þessa kosti í bið? Þá má ekki fara í rannsóknarboranir, þá má ekki rannsaka svæðin eins og þegar um er að ræða nýtingarflokk þar sem fyrirtækinu er heimilt, ekki að fara af stað eins og hér hefur komið fram heldur að sækja um nýtingarleyfi og rannsóknarleyfi.

Af því að Eldvörpin hafa verið til umræðu fullyrði ég að enginn, hvorki fyrirtækið né sveitarfélögin á svæðinu, hefur áhuga á að skerða gígaröðina í Eldvörpum, enda kemur það ekki til greina. Framkvæmdirnar sem verið er að tala um þar eru þannig að þær standa utan við það svæði. Og punkturinn minn er að nýtingin á þessu svæði, rannsóknir á þessu svæði og upplifunin, ferðamennskan og allt það sem hv. þingmaður talaði svo ágætlega um hérna áðan, fer allt vel saman. Hvernig hefur aðgengi að þessum frábæru svæðum komið til? Er það ekki vegna framkvæmda á vegum þeirra fyrirtækja (Forseti hringir.) sem eru að nýta þetta? Hefur hv. þingmaður til dæmis farið nýlega um og skoðað Gunnuhver? (Forseti hringir.) Allt aðgengi að þessum stöðum er ekki síst komið til vegna (Forseti hringir.) framkvæmda á vegum þeirra aðila sem eru að nýta jarðvarma.

(Forseti (KLM): Ég vil minna þingmenn á að virða ræðutímann og þessi stuttu andsvör.)