141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:28]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég velti því fyrir mér þegar ég sé fyrirvara hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur hvort það sé svo veigamikill skoðanamunur milli hennar og meiri hlutans í nefndinni ef maður horfir á þær athugasemdir sem hún gerir og þær ólíku hugmyndir sem hún hefur um tiltekna virkjunarkosti, miðað við það sem fram kemur í tillögunni sem liggur fyrir. Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort hún telji sig eiga samleið með meiri hlutanum um lyktir málsins. Við sem fylgst höfum með málflutningi hv. þingmanns vitum að hún hefur mjög sterkar meiningar um þessi mál og hún gerir mjög veigamiklar athugasemdir við flokkunina í tillögu ráðherranna. Þess vegna velti ég fyrir mér hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér framhaldið. Telur hv. þingmaður að hún muni geta stutt niðurstöðuna eins og hún kemur frá ráðherrunum ef ekki verður um að ræða neinar breytingar í þá átt sem hún hefur talað fyrir og rökstutt út frá hugmyndum sínum og skoðunum?