141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:34]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Spurt er hvort ég muni beita mér fyrir því að þau svæði sem ég hef tiltekið verði látin í friði. Já, hv. þingmaður er á hárréttum slóðum þar, að sjálfsögðu mun ég beita mér fyrir því og ég vænti þess að miklu fleiri muni gera slíkt hið sama. Ég held í alvöru talað að ef við ræddum þær hugmyndir eftir fimm eða sjö ár mundi nánast ekki nokkrum manni detta í hug að setja þessi svæði í nýtingu. Ég held það í alvöru talað. Ég held að það sé bara spurning um einhver ár þar til fólk uppgötvar, og þá m.a. fyrir tilstilli ferðaþjónustunnar og annars, hversu ótrúlega dýrmæt svæði við erum þarna með rétt við rætur alþjóðaflugvallarins og höfuðborgarinnar.

Varðandi sáttina lít ég svo á að við séum þrátt fyrir allt að þokast í rétta átt, að það þrátt fyrir allt sé þokkaleg sátt um aðferðafræðina, að við reynum að vanda okkur og gera þetta málefnalega. Jafnvel þótt ýmsir geri athugasemdir við hvernig haldið hafi verið á málinu á mismunandi stigum þess erum við samt að þokast í rétta átt.

Það kann vel að vera, eins og hv. þingmaður segir og komið hefur fram í morgun, að eftir einhvern tíma verði málið tekið upp o.s.frv. en það er þá alla vega á afmarkaðri sviðum en áður. Ég held að aðalmálið sé að horfa á heildarmyndina og sáttin sem á að verða til er auðvitað sáttin við framtíðina. (Forseti hringir.) Þá á ég ekki bara við sáttina á milli einhverra þingmanna sem annaðhvort eru hér eða ekki eftir nokkur ár, heldur sáttina um að við höfum farið rétt að, (Forseti hringir.) að við höfum í raun og sann lagt okkur fram um að taka skynsamlegar ákvarðanir byggðar á faglegri vinnu þar sem engin risastór göt eru (Forseti hringir.) fyrir hendi eins og nú er reyndin. Það eru enn þá stór þekkingargöt til staðar og það eigum við að viðurkenna.