141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Róberts Marshalls að hann ræddi mikið um mikilvægi ósnortinna víðerna í sambandi við verndun svæða sem koma til greina varðandi virkjunarkosti. Eitt af umdeildari málum sem við höfum rætt hér í dag eru virkjanir í neðri hluta Þjórsár sem ekki eru í ósnortnum víðernum. Ég er að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður vilji skýra nánar afstöðu sína til þeirra kosta sem lentu mjög ofarlega eða framarlega í nýtingarröð miðað við á þá mælikvarða sem lagðir voru til grundvallar í vinnu verkefnisstjórnar og faghópa. Ég vildi inna hv. þingmann eftir því hver væri afstaða hans til þessara tilteknu virkjunarkosta og á hvaða forsendum hann legðist gegn því að þeir yrðu nýttir, eins og mér hefur heyrst hann gera.