141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:07]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Það er gott að geta loksins rætt þetta mjög svo mikilvæga mál. Það hefur tekið langan tíma og margra ára vinna og mikil vinna margra er að baki, mjög vönduð vinna, en henni er, eins og fram hefur komið hér, hvergi nærri lokið.

Mér þykir sjálfum mjög leitt að ekki skuli hafa náðst betra samkomulag hér á Alþingi um rammaáætlun. Þar ræður sá gamli góði draugur, sérhagsmunir sem teygja sig inn í ákveðna stjórnmálaflokka og krefjast þess að vélar og tæki fyrirtækja fái atvinnu. Að mestu leyti er gagnrýnin vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár og hálendisvirkjana, vegna Hagavatns, vegna Hólmsárvirkjunar við Atley. En gagnrýnin hefði verið út af einhverju öðru ef þær hefðu ekki verið til taks, þannig held ég að það hefði bara farið. Það er þannig hugsun á bak við hjá flestum þeim sem vilja virkja, að það á bara að virkja og setja punktinn þar fyrir aftan.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafna því að náttúran eigi að njóta vafans, þeir bara hafna því algjörlega. Það kemur skýrt fram í umræðunni um Hagavatnsvirkjun, í þeim tillögum sem hafa verið lagðar fram og hvernig hv. þm. Róbert Marshall fór svo yfir það mál hér rétt áðan. Það er varla farið að skoða svæðið og ótal rannsóknum ólokið, ekki einu sinni hafnar, allar sem munu hafa afgerandi áhrif á hvort virkjun þarna er af einhverju viti eða ekki, en það á ekkert að hlusta á það. Það á bara að fara af stað og búa til eitthvað sem forsvarsmenn virkjunarinnar kölluðu jafnrennslisvirkjun, sem er hugmynd sem í raun gengur ekki upp, að því er virðist, og hefur aldrei verið smíðuð eða byggð hér á landi áður.

Það versta við niðurstöðuna í þessu máli er kannski að þeir sem ekki eru sammála því hafa í hótunum um framhaldið og segja hreint út: Ef ég fæ ekki mitt fram í þessu máli og þetta fer í gegn svona þá ætla ég næst þegar ég kemst í meiri hluta að breyta þessu, ég ætla að eyðileggja þetta og ég ætla að ná mínu fram. Það er afleitt hugarfar í jafnstóru máli og rammaáætlun. En það er ágætt að það komi fram, mér finnst ágætt að það komi fram. Komin er fram skýr afstaða hjá tveimur stjórnmálaflokkum hér á þingi hvað varðar íslenska náttúru og umhverfi og hún er einfaldlega sú að ef hægt er að græða peninga á einhverju öðru skuli náttúran víkja. Ég leyfi mér ekki einu sinni að efast um að viðhorfið þar yrði hið sama ef olía fyndist á Þingvöllum, þá yrði hugsunin sú sama.

Ég hefði viljað sjá rammaáætlun öðruvísi en ég geri mér grein fyrir og sýni þá ábyrgð að það er betra að hún fari í gegn svona en að hún fari ekki í gegn. Ég er með fyrirvara við álit atvinnuveganefndar og ég er líka með fyrirvara sem áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd við rammaáætlun.

Mig langar að lesa hér aðeins þann fyrirvara, með leyfi hæstv. forseta, en þar segir með réttu:

„Í grunninn telur Þór að efast megi um hvort rétt hafi verið að fela stjórnmálamönnum á Alþingi að taka ákvarðanir um hvaða virkjanir verður heimilað að ráðast í og hverjar ekki. Slíkar ákvarðanir bindi í raun hendur komandi kynslóða og því varði þær velferð þeirra miklu. Erfitt sé að réttlæta slíka skerðingu á möguleikum til að ráða eigin hag.“

Þetta er hluti af umræðunni sem hefur ekkert verið talað mikið um. Með því að fara af stað og virkja er verið að taka fyrir möguleika komandi kynslóða á að búa í því landi sem við búum í í dag. Það er verið að gjörbreyta landinu, það er verið að gjörnýta auðlindir með einum hætti en ekki öðrum, hætti sem er ekki afturkræfur. Tappinn verður aldrei tekinn úr Hálslóni aftur. Stærsta óbyggða landsvæði í allri norðvestanverðri Evrópu verður aldrei endurheimt, ómetanleg gersemi fyrir alla Evrópu, það var fært undir vatn til að hægt væri að selja raforku til álvers á Reyðarfirði þar sem starfa 400 manns. Það eru svona ákvarðanir sem menn staldra ekki nægilega lengi við og hugsa um áður en þeir taka þær.

Ég vík aftur í fyrirvarann, með leyfi forseta:

„Allt að einu telur hann ekki verða fram hjá því litið að þetta verkefni var sett í hendur Alþingis og það getur ekki undan því hlaupist.

Þrátt fyrir að segja megi að andi lagalegs grundvallar rammaáætlunar sé að skapa faglegar undirstöður undir heimildir til nýtingar eða verndunar virkjanakosta telur Þór ekki hjá því komist að draga fram þau atriði sem honum hefur þótt erfiðast að sætta sig við undir meðferð málsins. Í fyrsta lagi telur hann ófært annað en að horfa til þeirrar reynslu sem skapast hafi af Hellisheiðarvirkjun. Frá henni stafi brennisteinsmengun yfir opinberum viðmiðum og ekki hafi hingað til tekist að finna viðeigandi lausn á þeim vandamálum sem sú mengun skapi. Í því ljósi telur Þór í raun óásættanlegt að setja nokkur háhitasvæði á Reykjanesskaganum strax í nýtingarflokk, þ.e. svæðin í Stóru-Sandvík, Eldvörpum, Sandfelli, Sveifluhálsi, Meitlinum, Gráuhnúkum og Hverahlíð á Reykjanesi. Er það mat Þórs að nær væri að þessir kostir yrðu settir í biðflokk á meðan frekari rannsóknir færu fram. Í öðru lagi telur Þór algerlega óásættanlegt að virkjanakostur í Bjarnarflagi hafi verið settur í nýtingarflokk. Er það mat hans að nauðsynlegt sé að endurnýja umhverfismat svæðisins og að tryggt verði að virkjun svæðisins verði ekki til þess að spilla gildi Mývatns og Laxár, hvort sem litið er til verulegs gildis þess fyrir ferðamennsku á svæðinu eða sérstöðu náttúrufars þess. Í þriðja lagi telur Þór að huga hefði átt að frekari sátt í milli þingmanna um Urriðafossvirkjun. Jafnvel megi sjá fyrir sér að hana mætti færa í nýtingarflokk væri úttak virkjunarinnar staðsett ofan við núverandi áætlað útfall og ofan við Urriðafoss sjálfan svo fremi sem slíkt standist nýtt umhverfismat virkjunarinnar.“

Herra forseti. Þetta er svolítið mikilvægt atriði, ekki endilega vegna Urriðafossvirkjunar sjálfrar, þó að þetta fjalli um hana, heldur vegna þess að í virkjunarhugmyndum Landsvirkjunar eru eingöngu settir fram ýtrustu virkjunarkostir. Hvað varðar Urriðafoss er sett fram stærsta mögulega virkjun sem þeir geta hugsað sér þegar miklu minni virkjun með útfalli úr þeirri virkjun fyrir ofan Urriðafoss, þannig að hann héldist ósnertur, er ekki til umræðu af hálfu Landsvirkjunar vegna þess að hún er ekki nógu stór. Þarna eru menn ekki beinlínis að reyna að leita sátta í máli.

Það sama á við um þá umræðu sem hefur skapast um að stækka megi aðrar virkjanir sem nú eru til staðar eins og að stækka megi Búrfellsvirkjun, að stækka megi Sultartangavirkjun og að stækka megi Kárahnjúkavirkjun án þess að fara út í nýjar. Sú umræða hefur ekkert verið inni í myndinni vegna þess að það er einfaldlega miklu meira spennandi að teikna nýjar virkjanir og smíða nýjar virkjanir og atast um landið þvert og endilangt með risastórum jarðvinnuvélum til að skapa peninga fyrir einhverja sérhagsmunaaðila. Það er það sem virkjunarstefnan gengur út á en ekki út á skynsemi. Þetta er atriði sem brýnt er að menn hugi að í framtíðinni. Þarf endilega að fara af stað út í allar þessar nýju virkjanir, fáum við ekki næga raforku með því að stækka þær sem fyrir eru vegna aukinnar bráðnunar jökla?

Áfram segir í álitinu, með leyfi forseta:

„Að auki bendir Þór á að í minnisblaði frá Náttúrufræðistofnun Íslands komi fram nokkuð ískyggilegar upplýsingar. Í því setja jarðfræðingarnir Sigmundur Einarsson og Kristján Jónasson fram þá skoðun sína að í tillögunni sé of langt gengið í að áætla þá nýtanlegu orku sem megi vinna úr háhitasvæðum á Reykjanesskaganum. Byggir niðurstaða þeirra annars vegar á því að eðli jarðvarma í jarðskorpunni sé að hann endurnýi sig hægt og því beri að líta á jarðvarmavinnslu sem nýtingu námu með endanlegt magn af varma. Af þeim sökum draga þeir meðal annars eftirfarandi ályktanir: „… jarðhitasvæðið í Svartsengi/Eldvörpum er nánast fullnýtt og hið sama gildir um Hengilssvæðið. Því getur ekki talist forsvaranlegt að auka orkuvinnslu úr þessum svæðum á næstu áratugum.“ Hins vegar byggja jarðfræðingarnir á því að töluverð óvissa ríki meðal annars um stærð jarðhitasvæðisins á Reykjanesi. Þá telja þeir að í „niðurstöðum rammaáætlunar [sé] Reykjanessvæðið nánast sett í ruslflokk hvað varðar verndargildi. Í úttekt Náttúrufræðistofnunar á verndargildi jarðhitasvæða landsins [komi] skýrt fram að svæðið er talið hafa jarðfræðilegt verndargildi á heimsmælikvarða jafnvel þótt því hafi þegar verið raskað nokkuð.“

Að lokum vísar Þór til orða sem koma fram á bls. 3 í nefndaráliti iðnaðarnefndar frá 139. löggjafarþingi sem urðu að lögum 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, þar sem fjallað er um þann upplýsingaskort sem geti leitt til þess að virkjanakostir verði færðir í biðflokk.“

Í því áliti segir orðrétt:

„… vill nefndin árétta að við þetta mat skulu ráðherra og Alþingi einnig líta til almannahagsmuna …“

Í þessu samhengi telur Þór ef til vill rétt að hafa í huga að þrátt fyrir að gildi niðurstöðu faghópa verkefnisstjórnar sé vissulega mikið og rétt að byggja á því sé ekki hægt annað en að velta fyrir sér hvaða vægi „almannahagsmunir“ hafi haft í mati ráðherra og Alþingis bæði þegar litið er til einstakra virkjunarkosta og þegar rammaáætlun er skoðuð í heild sinni.“

Nú er orðið „almannahagsmunir“ stórt orð en tæpt var á því hér áðan, meðal annars í ræðum, að almannahagsmunir eru til dæmis hagsmunir svæða eða sveitarfélaga þar sem það skiptir mjög miklu máli að ekki komi einhverjir lukkuriddarar aðvífandi og veifi peningum og sundri samfélaginu, bara með tilboðum og gylliboðum um að ef það megi nú virkja hér og rústa landslaginu geti menn kannski fengið einhverjar örfáar fleiri krónur í sveitarsjóð. Þetta hefur verið áberandi í umræðu um Hólmsárvirkjun við Atley þar sem menn hafa verið að beita fyrir sig blankri sveitarstjórn sem ástæðu fyrir því að virkja. Mér finnst það algjörlega óboðleg og siðlaus vinnubrögð. Sveitarstjórnin og sveitarfélagið er ekki rekstrarlega sjálfbært, eftirlitsnefnd sveitarfélaga hefur lýst því yfir, og þá er þessu veifað framan í menn: Ef þið byggið nú virkjun og eyðileggið þessa stóru landslagsheild með virkjun og háspennulínum getið þið kannski fengið 15 milljónir á ári í fasteignagjöld. Það er ekki nóg til að bjarga fjárhag sveitarfélagsins en það er aðeins upp í gatið sem þarf að stoppa í, í stað þess að hið opinbera komi að málum með meira afgerandi hætti og komi beinlínis í veg fyrir að landið sé eyðilagt á þessum forsendum. Mér finnst þetta vera svo gjörsamlega galnar forsendur að það er alveg með ólíkindum að menn skuli hafa geð í sér til að beita þeim fyrir sig.

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir þá fyrirvara sem hafa komið fram við málið frá hv. þingmönnum Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Róberti Marshall og Atla Gíslasyni. Ég fagna breytingartillögu, sem fram er komin frá Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur, um að svæðin á Reykjanesi verði sett í biðflokk.

Fyrirliggjandi eru álit tveggja minni hluta í umhverfis- og samgöngunefnd og hér var farið mjög rækilega yfir sumt í áliti 1. minni hluta áðan af hálfu Róberts Marshalls um Hagavatnsvirkjun og alla þá vitleysu og þær rangfærslur sem uppi eru varðandi þann virkjunarkost, um það hversu hann sé nauðsynlegur frá sandblásturs- og landgræðslusjónarmiði. Það eru einfaldlega rangfærslur í því nefndaráliti og í minnisblaði iðnaðarráðuneytisins, sem líka var notað sem gagn í þessu máli, er líka fullt af rangfærslum. Álit minni hlutans er til dæmis alls ekki í samræmi við það sem kom fram á fundum með Ólafi Arnalds og Sveini Runólfssyni á sínum tíma. Þar eru menn enn þá með þetta hugtak sem þeir kalla jafnrennslislón, sem enginn veit hvað er en stjórnarformaður Hagavatnsvirkjunar, Eyþór Arnalds, hefur verið að flagga sem einhvers konar lausn á málinu. Það veit enginn hvað jafnrennslisvirkjun er nema að það er hugsanlega virkjun sem þarf að vera lokuð hálft árið og ekki er sýnt fram á það í neinum arðsemisútreikningum að slík virkjun gangi upp fjárhagslega. Ólafur Arnalds sagði að það vantaði að minnsta kosti fimm eða sjö mismunandi tegundir af rannsóknum á þessu svæði áður en hægt væri að gera því skóna að virkjun þar mundi græða landið nægilega vel upp.

Álit 2. minni hluta er ekki eins ítarlegt en er í lokin með þá hótun að ef þessi niðurstaða fer óbreytt í gegnum þingið verði henni kollvarpað strax næsta sumar ef kominn verður á nýr meiri hluti í þinginu. Það er líka grafalvarlegt mál hvernig menn haga sér með það. Það liggur fyrir hvernig á að vinna svæðin sem eru í biðflokki, þau eiga að fara inn í vinnu við næstu rammaáætlun og halda þar áfram í því faglega ferli sem þau eru sett í. En hér eru þingmenn sem ætla að hafa það að engu af því að þeir fá ekki sitt fram persónulega í þessari atrennu. Náttúran má aldrei njóta vafans, það er sú staða sem uppi er í dag, því miður, og það er sorglegt. En þannig er það nú bara.

Ég fagna því að hafa fengið að taka þátt í þessari vinnu. Ég hef lært alveg gríðarlega mikið um land, um náttúru og um umhverfi. Ég hef sjálfur verið mikill umhverfisverndarsinni í mjög langan tíma og mér finnst óboðlegt að við tökum það hlutverk að okkur, eins og ég nefndi í upphafi fyrirvara míns, að við séum að taka hér ákvarðanir um að eyðileggja nýtingarmöguleika komandi kynslóða með því að færa stór landsvæði undir vatn. Um neðri hluta Þjórsár gildir það sem menn hafa sagt hér áður að Holta- og Hvammsvirkjanir færa einfaldlega umtalsvert landsvæði, óspillt landsvæði, árfarveg sem er alveg gríðarlega fallegur, undir lón, undir inntakslón fyrir virkjanir. Það landsvæði verður aldrei endurheimt.

Hvaða leyfi höfum við til að taka þær ákvarðanir? Þetta er spurning sem við höfum einfaldlega ekkert spurt okkur að. Okkur finnst þetta bara alveg sjálfsagt mál eða flestum, mér finnst það ekki, mér finnst það alls ekki sjálfsagt mál. Mér finnst að þarna sé hlutur sem við þurfum að staldra við og segja eins og kom hér fram áðan: Til hvers er virkjað til að framleiða rafmagn inn á kerfi sem er lagalega skuldbundið til að kaupa allt rafmagn sem framleitt er inn á það bara til þess að einhverjir örfáir aðilar geti hagnast á því? Það eru ekki boðleg rök fyrir virkjunum. Til þess að framleiða rafmagn til að geta selt það á kostnaðarverði til stóriðju, við höfum verið í þeim farvegi í 30–40 ár. Straumsvík hafði vissulega gífurleg áhrif og var byggð í allt öðru umhverfi á sínum tíma, og Búrfellsvirkjun, en síðari álver, en niðurstaðan úr öllu því rifrildi, öllum þeim átökum og öllum þeim landspjöllum sem hafa verið gerð vegna álvera, er að 0,78% af vinnuafli landsins vinna í álverum; 99,22% af vinnuafli landsins eru að gera eitthvað annað. Þetta „eitthvað annað“ sem menn hafa hæðst svo mikið að í garð þeirra sem vilja vernda náttúruna, 99,22% vinnuaflsins vinna við það. Það er nú bara dágott og þetta „eitthvað annað“ plumar sig bara alveg hreint ágætlega. Og ég hef engar efasemdir um að þetta „eitthvað annað“ muni pluma sig ágætlega, alveg fínt, þó að hugsanlega verði ekki byggð ein einasta virkjun í viðbót á Íslandi.

Ég veit ekki hvort það er rétt en það er alla vega nægileg ástæða til að staldra rækilega við og velta því fyrir okkur í framtíðinni hvert við erum að fara vegna þess að komandi kynslóðir munu ekki hafa neitt „eitthvað annað“ til að vinna við ef búið verður að eyðileggja alla náttúru Íslands.