141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri að lokum fyrri hluta þessarar umræðu, sem verður væntanlega haldið áfram að loknum nefndadögum í næstu viku, að fá að bæta upp galla á framsöguræðu minni sem var sá að ég gleymdi að geta um villur sem hafa slæðst inn í nefndarálit meiri hlutans. Það er í 12. kafla á síðu 21 í hinu prentaða þingskjali, undirkafla sem heitir Farið við Hagavatn og Hagavatnsvirkjun. 3. mgr. hljóðar svo:

„Þau rök sem í athugasemdum við tillöguna eru sett fram fyrir því að færa Hagavatnsvirkjun úr orkunýtingarflokki og í verndarflokk eru þau að samkvæmt nýjum upplýsingum sé ekki óyggjandi að stífla í Hagavatni hamli gegn sandfoki.“

Í þennan stutta texta hafa slæðst eiginlega þrjár villur. Sú fyrsta er að það má skilja þetta svo að ráðherrann hafi fært Hagavatnsvirkjun úr orkunýtingarflokki í verndarflokk en svo var ekki heldur stendur flokkun Hagavatnsvirkjunar óbreytt frá formannahópnum. Í öðru lagi er eins og að sú virkjun hafi einhvern tíma verið í orkunýtingarflokki sem hefur aldrei verið heldur setti formannahópurinn hana í biðflokk og ekki í verndarflokk sem er þriðja villan.

Ég veit að þetta kemur að sök en ég vona að menn skynji þessa leiðréttingu. Hin nýja málsgrein sem fer inn í nefndarálitið í staðinn fyrir þessa er svona:

„Þau rök sem formannahópurinn setti fram fyrir því að flokka Hagavatnsvirkjun í biðflokk eru þau að samkvæmt nýjum upplýsingum sé ekki óyggjandi að stífla í Hagavatni hamli gegn sandfoki.“

Þetta síðasta er eins.

Þetta er leiðinlegt og eru mistök mín vegna þess að ég átti að lesa nefndarálitið betur yfir sem framsögumaður. Ég biðst afsökunar á þessu, sérstaklega vegna þess að ef til vill er umhendis að prenta upp skjalið sem er langt og mikið en þetta verður leiðrétt í þingtíðindum og ég þakka að lokum fyrir hjálp við að koma þessu til skila úr ræðustól Alþingis.