141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

rannsóknarnefndir.

416. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um rannsóknarnefndir. Frumvarpið flyt ég fyrir hönd forsætisnefndar Alþingis.

Með því eru lagðar til þrjár breytingar á lögum um rannsóknarnefndir sem miða í fyrsta lagi að því að styrkja frekar undirbúning að skipun rannsóknarnefnda, í öðru lagi að tryggja þeim einstaklingum sem unnið hafa að rannsókn máls ákveðna friðhelgi gegn hugsanlegum málsóknum út af starfi þeirra í þágu rannsóknarinnar og í þriðja lagi að kveða skýrar á um greiðslu kostnaðar við afhendingu gagna til rannsóknarnefndarinnar.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að þegar ákveðið hefur verið að skipa héraðsdómara sem formann rannsóknarnefndar skuli innanríkisráðherra veita honum leyfi frá störfum sínum sem héraðsdómara á meðan nefndin starfar. Samkvæmt gildandi lögum um dómstóla verður héraðsdómara ekki veitt leyfi frá störfum í lengri tíma samfleytt en 12 mánuði nema vegna veikinda eða til náms. Óhjákvæmilegt er að gera ráð fyrir því að störf rannsóknarnefndar geti tekið lengri tíma en eitt ár. Einnig er í frumvarpsgreininni gert ráð fyrir því að ríkisstarfsmenn skuli með sama hætti eiga rétt á leyfi frá starfi sínu og jafnframt er tekið fram að leyfi sem veitt er hafi ekki áhrif á önnur starfsréttindi, hvort sem um er að ræða héraðsdómara eða ríkisstarfsmenn.

Loks er í 1. gr. frumvarpsins fjallað um að ef nefndarmaður verður forfallaður eða getur ekki af öðrum ástæðum sinnt starfinu geti forsætisnefnd skipað annan mann til þess að taka sæti í nefndinni. Hér er um að ræða heimild og ræðst beiting hennar af aðstæðum hverju sinni. Þannig má nefna sem dæmi að sé komið að því að rannsóknarnefnd skili skýrslu sinni geta rök mælt með því að heimildinni verði ekki beitt.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði með skýrari hætti á um hvernig skuli fara með kostnað við öflun gagna sem fellur til vegna sérstakra aðstæðna, t.d. þegar beita þarf sérstökum aðferðum við öflun þeirra eða gögnin geymd hjá þriðja aðila. Meginreglan er sú, virðulegur forseti, að þeim aðila sem rannsóknarnefnd beinir kröfu sinni að er skylt að láta í té þau gögn sem nefndin fer fram á.

Almennt verður að gera ráð fyrir því að kröfu um afhendingu gagna sé beint að þeim aðila sem hefur útbúið þau eða fengið þau í tengslum við starfsemi sína, en einnig getur verið um það að ræða að þriðji aðili hýsi gögnin án þess þó að starfsemi hans sé viðfangsefni rannsóknar eða tengist henni beint. Enn fremur getur sú staða komið upp, virðulegur forseti, að sá aðili sem rannsókn tekur til sé ekki lengur til staðar, annar aðili hafi tekið við starfsemi hans að hluta eða öllu leyti eða að gögnin séu varðveitt hjá sjálfstæðum aðila og sérstakt viðmót eða hugbúnað þurfi til þess að nálgast þau.

Virðulegur forseti. Sé um að ræða rafræn gögn sem rannsóknarnefnd þarf að afla og vistuð eru í gagnagrunni eða sérstöku skráningarkerfi getur reynst kostnaðarsamt að taka þau saman og koma þeim á það form eða miðil að unnt sé að vinna með þau. Þó að gert sé ráð fyrir því að kostnaður af starfi rannsóknarnefndar verði greiddur úr ríkissjóði, samanber 3. mgr. 3. gr. laga um rannsóknarnefndir, hefur ekki verið litið svo á að þar undir falli kostnaður af vinnu við að taka saman og afhenda rannsóknarnefnd gögn sem hún hefur farið fram á vegna starfa sinna.

Því er í greininni lagt til að við sérstakar aðstæður megi þó víkja frá þessu, t.d. þegar gögn eru vistuð með rafrænum hætti hjá þriðja aðila og sérhæfðan búnað eða kunnáttu þarf til að nálgast þau eða þegar afhending þeirra krefst augljóslega kostnaðar umfram það sem almennt má gera ráð fyrir. Til þess að gæta sanngirni er lagt til að rannsóknarnefnd geti ákveðið að kostnaður vegna slíkra aðstæðna verði greiddur að hluta eða öllu leyti úr ríkissjóði. Sé um að ræða einstakling, lögaðila eða opinbera starfsmenn sem til rannsóknar eru, samanber 3. og 5. mgr. 5. gr. laga um rannsóknarnefndir Alþingis, ber rannsóknarnefnd þó almennt kostnað af afhendingu og vinnslu gagna eftir því sem við á. Leggja ber áherslu á að áður hafi rannsóknarnefndin lagt mat á þýðingu gagnanna fyrir rannsókn hennar og að leitað hafi verið hagkvæmustu leiða til að fá þau afhent.

Virðulegur forseti. Í 3. gr. frumvarpsins er loks lagt til að tekið verði upp sambærilegt ákvæði og er í 19. gr. laga um rannsóknarnefnd Alþingis um vernd þeirra einstaklinga sem unnið hafa að rannsókn komi til málsóknar út af atriðum sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndar eða öðrum skýringum eða frásögnum í tengslum við rannsóknina. Því er nauðsynlegt að kveða á um skaðleysi nefndarmanna á þann hátt sem hér er gert. Byggt er á meginreglu um ábyrgð vinnuveitanda á saknæmri háttsemi starfsmanna og eiga sömu sjónarmið við um skaðleysi þessara einstaklinga og um dómara, en málsókn gegn þeim er útilokuð þar sem ríkið ber skaðabótaábyrgð á gerðum þeirra. Þessi regla er þó ekki takmörkuð við skaðabótaábyrgð heldur nær hún til hvers konar viðurkenningarkrafna, krafna um ómerkingu ummæla og annars konar einkaréttarkrafna. Telja verður sanngjarnt og eðlilegt að nefndarmenn verði ekki þvingaðir til að grípa til varna fyrir það lögmælta verkefni sem þeir hafa verið valdir til og hugsanlega bera af því fjárhagslegt tjón.

Virðulegur forseti. Ég legg til að þetta mál gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að lokinni þessari umræðu og fái þann framgang í nefndinni sem og hér í þinginu sem því ber.